Almenna bókafélagið býður ásamt ræðismönnum Eystrasaltsríkjanna þriggja á Íslandi til samkomu og útgáfuhófs föstudaginn 26. ágúst 2016 kl. 17–19 í Litlatorgi í Háskóla Íslands. Þann dag eru endurútgefnar tvær bækur um sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna, sem komu út á íslensku á sínum tíma: Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum (Baltic Eclipse) eftir Ants Oras frá 1955 í þýðingu séra Sigurðar Einarssonar í Holti og Eistland: Smáþjóð undir oki erlends valds(Estland: En studie i imperialism) eftir Andres Küng frá 1973 í þýðingu Davíðs Oddssonar, þá laganema. Tilefni endurútgáfunnar er, að fyrir réttum aldarfjórðungi, 26. ágúst 1991, endurnýjaði Ísland fyrst ríkja viðurkenningu sína á Eystrasaltslöndunum við hátíðlega athöfn í Höfða að viðstöddum utanríkisráðherrum Eystrasaltsríkjanna þriggja og Íslands, Lennart Meri frá Eistlandi, Janis Jürkans frá Lettlandi og Saudargas Algirdas frá Litáen og Jóni Baldvini Hannibalssyni, sem hafði ásamt Davíð Oddsyni forsætisráðherra beitt sér mjög í málinu. Þá um kvöldið sátu utanríkisráðherrarnir boð Davíðs í Ráðherrabústaðnum. Fyrirhuguð er einnig ráðstefna á vegum utanríkisráðuneytisins í september til að minnast þessara tímamóta, og styður RNH það framtak eftir föngum. Eystrasaltsríkin voru öll hernumin af Ráðstjórnarríkjunum 1940 og gerð að ráðstjórnarlýðveldum, en endurheimtu sjálfstæði sitt 1991, eftir að valdarán harðlínukommúnista í Rússlandi misheppnaðist og Ráðstjórnarríkin hrundu.
Í útgáfuhófinu flytja Davíð Oddsson ritstjóri og Tunne Kelam, þingmaður á Evrópuþinginu, stutt ávörp. Davíð mun segja söguna að baki viðurkenningarinnar á Eystrasaltsríkjunum, en líka frá stuðningi Íslands á bak við tjöldin innan Atlantshafsbandalagsins við aðild Eystrasaltsríkjanna að bandalaginu, á meðan hann var forsætisráðherra 1991–2004. Tunne Kelam er sagnfræðingur að mennt og missti skjalavarðarstöðu sína á hernámstímanum í Eistlandi vegna andófs við kommúnistastjórnina þar. Var hann settur í erfiðisvinnu að næturlagi á ríkisreknu hænsnabúi. Hann gerðist einn af leiðtogum sjálfstæðisbaráttu Eistlendinga og var forseti þjóðþings, sem kosið var til 1990 án fulltingis hernámsyfirvaldanna og eistneskra erindreka þeirra. Náðist þó samkomulag um það ári síðar við hið svokallaða Æðsta ráð, sem rússnesk hernámsyfirvöld höfðu skipað 1940, hvernig sjálfstæði landsins yrði endurheimt í áföngum. Kelam sat á stjórnlagaþingi Eistlands 1991–1992 og var kjörinn þingmaður á þjóðþinginu, Riigikogu, 1992 og sat þar til 2004, þegar hann var kjörinn á Evrópuþingið fyrir eistneska Föðurlandsflokkinn. Hann var varaforseti þjóðþingsins 1992–2003 og formaður Evrópunefndar þess 1997–2003. Hann hefur skrifað nokkrar bækur á móðurmáli sínu um Eistland og Evrópu.
Sandra Vokk, forstöðumaður Unitas í Eistlandi, stjórnar samkomunni. Unitas var stofnuð af Mart Laar, fyrrverandi forsætisráðherra Eistlands, og fleirum árið 2008 til að verja vestræna mannúðarstefnu gegn alræði í orði og verki. Bækurnar tvær eftir Oras og Küng um sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltslandanna eru í ritröðinni „Safn til sögu kommúnismans“, sem Almenna bókafélagið gefur út undir ritstjórn prófessors Hannesar H. Gissurarsonar. Áður hafa komið út í þessari ritröð Greinar um kommúnisma eftir breska heimspekinginn Bertrand Russell 17. júní 2015, Konur í þrælakistum Stalíns eftir Elinor Lipper og Aino Kuusinen 19. júní 2015, Úr álögumeftir Jan Valtin (réttu nafni Richard Krebs) 23. ágúst 2015 og Leyniræðan um Stalíneftir Níkíta Khrústsjov 25. febrúar 2016. Prófessor Hannes skrifar formála og skýringar í öllum ritunum, sem eru líka gefin út á Netinu, og er aðgangur að þeim þar endurgjaldslaus.
Ókeypis aðgangur er að samkomunni og allir velkomnir. Ofannefndar bækur og nokkur önnur útgáfuverk Almenna bókafélagsins verða þar til sölu við vægu verði. Ritröðin er liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“. Hún nýtur einnig stuðnings Atlas Network og IDDE, Samtaka um beint lýðræði í Evrópu. RNH er aðili að Evrópuvettvangi minningar og samvisku, sem heldur á lofti minningunni um fórnarlömb alræðisstefnunnar.