Bjarni tekur við skýrslunni um bankahrunið úr hendi Hannesar Hólmsteins. Ljósm. Haraldur Guðjónsson, Viðskiptablaðið.
Rannsóknastjóri RNH, dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor, afhenti Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra 25. september 2008 skýrslu þá, sem hann hefur unnið á vegum Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins 2008. Helstu niðurstöður skýrslunnar eru, að Bretar hafi beitt hryðjuverkalögum gegn Íslendingum að óþörfu, því að þeir hefðu getað náð yfirlýstu markmiði sínu með miklu mildari úrræðum, að Bretar hafi brotið gegn banni samningsins um Evrópska efnahagssvæðisins gegn mismunun vegna þjóðernis, því að þeir hafi í fjármálakreppunni boðið öllum breskum bönkum aðstoð nema tveimur, sem þeir hafi beinlínis lokað, Heritable og KSF (Kaupthing Singer & Friedlander), en þeir voru í eigu Íslendinga, og að Bandaríkjamenn hafi í fjármálakreppunni veitt Svíþjóð, Danmörku og Noregi þá aðstoð, sem þeir hafi neitað Íslendingum um. Hannes gerir þá niðurstöðu fjármálafræðinganna dr. Ásgeirs Jónssonar og dr. Hersis Sigurgeirssonar að sinni, að eignasöfn íslensku bankanna hafi almennt ekki verið betri né verri en erlendra banka á sama tíma. Hann rekur einnig í skýrslunni, hvernig stjórnvöld í Noregi, Finnlandi og Danmörku hafi aðstoðað innlenda og vel tengda kaupsýslumenn við að komast yfir eignir íslensku bankanna á smánarverði.
Hannes Hólmsteinn heldur því fram, að viðbrögð íslenskra stjórnvalda við bankahruninu hafi verið skynsamleg. Með neyðarlögunum frá 6. október 2008 hafi þau róað almenning og takmarkað fjárskuldbindingar íslenska ríkisins. Það geti orðið öðrum þjóðum fordæmi að gera innstæður að forgangskröfum, eins og Íslendingar hafi gert, en með því verði ríkisábyrgð á bönkum óþörf. Tvær stjórnmálaályktanir megi draga af bankahruninu: að geðþóttavald verði alltaf misnotað, og sé beiting hryðjuverkalaganna bresku dæmi um það, og að Ísland staði eitt í heiminum, enginn hafi viljað hjálpa því í hruninu nema Færeyingar og Pólverjar.
Skýrsla Hannesar Hólmsteins er á ensku, en hann kynnti efni hennar í sjónvarps- og útvarpsviðtölum, þar á meðal í Speglinum á Ríkisútvarpinu, Harmageddon á FM97.7 og Ísland vaknar á K-100, í íslenskum útdrætti á heimasíðu fjármálaráðuneytisins og í fjórum greinum í Morgunblaðinu:
Beiting hryðjuverkalaganna var Bretum til minnkunar
Íslendingum var neitað um aðstoð, sem aðrir fengu
Viðbrögð íslenskra stjórnvalda við bankahruninu voru skynsamleg
Framkoma sumra granna í bankahruninu var siðferðilega ámælisverð
Árið 2017 birti Hannes Hólmsteinn einnig skýrslu um lærdóma fyrir Evrópuþjóðir af íslenska bankahruninu hjá hugveitunni New Direction í Brüssel.
Viðbrögð þeirra, sem hafna niðurstöðum Hannesar Hólmsteins, af því að þeir telja hina alþjóðlegu fjármálakreppu ekki skipta miklu máli um bankahrunið, enda beri Íslendingar einir alla sök á því, hafa verið misjöfn, eins og skopteiknarar hafa hagnýtt sér: