Prófessor Hannes H. Gissurarson, sem situr í rannsóknarráði RNH, flutti fyrirlestur um íslenska bankahrunið á frelsisþingi Evrópusamtaka ungra íhaldsmanna, European Young Conservatives, í Cambridge 22. september 2013. Hann tók undir eina meginniðurstöðu í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu, sem hefði verið, að sérstök kerfisáhætta hefði myndast í íslenska bankakerfinu vegna skuldasöfnunar helstu eigenda bankanna, einkum og sér í lagi Baugshópsins undir forystu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Önnur kerfisáhætta hefði verið fólgin í því, að rekstrarsvæði bankanna hefði verið miklu stærra en baktryggingarsvæði þeirra. Hannes benti á, að þremur spurningum hefði þó ekki verið svarað þrátt fyrir rækilega rannsókn á innlendum áhrifaþáttum bankahrunsins: Hvers vegna neitaði bandaríski seðlabankinn hinum íslenska um gjaldeyrisskiptasamninga (í raun heimild til að prenta Bandaríkjadal), á meðan hann gerði slíka samninga við önnur Norðurlönd og mörg önnur ríki utan evrusvæðisins? Hvers vegna lokaði ríkisstjórn breska Verkamannaflokksins tveimur bönkum í eigu Íslendinga, sama dag og hún bjargaði öllum öðrum fjármálastofnunum í Bretlandi, þar á meðal bönkum, sem sættu rannsókn vegna peningaþvættis og hagræðingar vaxta? Hvers vegna beitti þessi sama ríkisstjórn hryðjuverkalögum á íslensk fyrirtæki og stofnanir með þeim afleiðingum, að öll viðskipti milli Íslands og umheimsins stöðvuðust?
Frelsisþingið var haldið í tilefni þess, að tuttugu ár eru nú liðin frá stofnun Evrópusamtaka ungra íhaldsmanna, en Samband ungra sjálfstæðismanna á Íslandi var eitt af þremur samtökum, sem höfðu forgöngu um stofnunina. Þótti þáverandi forystumönnum SUS önnur evrópsk æskulýðssamtök vera of höll undir báknið í Brussel. Margrét Thatcher, fyrrverandi forsætisráðherra Breta, var verndari Evrópusamtakanna allt frá byrjun, en Davíð Oddsson var í forsætisráðherratíð sinni einn af heiðursforsetum þess. Núverandi formaður samtakanna er breski fjármálafræðingurinn Tim Dier. Daniel Hannan, Íslandsvinur, evrópuþingmaður og ritari AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, var ræðumaður í hátíðarkvöldverði frelsisþingsins laugardaginn 21. september. Annar Íslandsvinur, Andrew Rosindell, sem situr í neðri málstofu breska þingsins, sleit þinginu 22. september. Rosindell var fyrsti formaður samtakanna, hefur oft komið til Íslands og á marga íslenska vini. Hann gat þess í ræðu sinni, að merki samtakanna væri íslensk svala á flugi, tákn frelsisins, og hefðu forystumenn samtakanna tekið það fram yfir stjörnuhringinn, sem væri merki Evrópusambandsins. Átta ungir sjálfstæðismenn sóttu frelsisþingið í Cambridge, en á frelsisþinginu voru um 120 fulltrúar frá 37 löndum. Þeim voru meðal annars sýnt skjalasafn Churchills, sem varðveitt er á Churchill-garði, þar sem frelsisþingið var haldið. Þátttaka Hannesar Hólmsteins í þinginu var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR um „Ísland, Evrópu og framtíð kapítalismans“, en AECR var helsti bakhjarl þingsins.
Hannes Hólmsteinn ræddi um efni fyrirlesturs síns í Cambridge við þá Frosta Logason og Mána Pétursson í útvarpsþættinum Harmageddon miðvikudagsmorguninn 25. september 2013.