Var Ísland fellt?

HHG.Cambridge.200.09.2013

Prófessor Hannes H. Gissurarson, sem situr í rannsóknarráði RNH, flutti fyrirlestur um íslenska bankahrunið á frelsisþingi Evrópusamtaka ungra íhaldsmanna, European Young Conservatives, í Cambridge 22. september 2013. Hann tók undir eina meginniðurstöðu í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu, sem hefði verið, að sérstök kerfisáhætta hefði myndast í íslenska bankakerfinu vegna skuldasöfnunar helstu eigenda bankanna, einkum og sér í lagi Baugshópsins  undir forystu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Önnur kerfisáhætta hefði verið fólgin í því, að rekstrarsvæði bankanna hefði verið miklu stærra en baktryggingarsvæði þeirra. Hannes benti á, að þremur spurningum hefði þó ekki verið svarað þrátt fyrir rækilega rannsókn á innlendum áhrifaþáttum bankahrunsins: Hvers vegna neitaði bandaríski seðlabankinn hinum íslenska um gjaldeyrisskiptasamninga (í raun heimild til að prenta Bandaríkjadal), á meðan hann gerði slíka samninga við önnur Norðurlönd og mörg önnur ríki utan evrusvæðisins? Hvers vegna lokaði ríkisstjórn breska Verkamannaflokksins tveimur bönkum í eigu Íslendinga, sama dag og hún bjargaði öllum öðrum fjármálastofnunum í Bretlandi, þar á meðal bönkum, sem sættu rannsókn vegna peningaþvættis og hagræðingar vaxta? Hvers vegna beitti þessi sama ríkisstjórn hryðjuverkalögum á íslensk fyrirtæki og stofnanir með þeim afleiðingum, að öll viðskipti milli Íslands og umheimsins stöðvuðust?

Frá v.: Karítas Ólafsdóttir, Hannes Hólmsteinn, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Hilmar Freyr Kristinsson.

Frá v.: Karítas Ólafsdóttir, Hannes Hólmsteinn, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Hilmar Freyr Kristinsson.

Hannes nefndi ýmsar ástæður, sem kynnu að vera til fjandskapar í grannlöndunum í garð íslensku bankanna. Leyniþjónusta Breta, MI5, hefði til dæmis rannsakað, hvort eigendur þeirra stunduðu peningaþvætti fyrir rússnesk glæpasamtök, en ekkert hefði komið fram, sem benti til þess. Alistair Darling hefði sagt í endurminningum sínum, að íslenskir auðmenn hefðu gefið stórfé til breska Íhaldsflokksins, en Hannes kvaðst ekki hafa fundið dæmi þess þrátt fyrir nokkra leit. Mörg sveitarfélög undir stjórn Verkamannaflokksins hefðu geymt fé sitt á Icesave-reikningum Landsbankans, og þess vegna hefðu frammámenn flokksins ókyrrst. Meginskýringin á þessum fjandskap hefði hins vegar eflaust verið, að íslensku bankarnir veittu öðrum evrópskum bönkum harða samkeppni. Myndast hefði sú skoðun í röðum ráðamanna í hinum vestræna heimi, að fella þyrfti íslensku bankana öðrum til viðvörunar eins og fjármálafyrirtækið Lehman Brothers hefði verið fellt tveimur vikum á undan. Hannes tók fram, að hann væri ekki með þessu að verja íslensku bankana sérstaklega, en aðeins að benda á, að margir stórir bankar annars staðar hefðu fallið, hefði þeim ekki verið bjargað með gjaldeyrisskiptasamningum við bandaríska seðlabankann, til dæmis Danske Bank í Danmörku og UBS og Credit Suisse í Sviss. Hann sagðist ekki vera þeirrar skoðunar, að skilyrðislaust ætti að bjarga bönkum, sem komist hefðu í þrot. Til dæmis sætu írskir skattgreiðendur nú uppi með þunga skuldabyrði vegna þess, að írska ríkið hefði tekið fulla ábyrgð á bönkum landsins.

Frelsisþingið var haldið í tilefni þess, að tuttugu ár eru nú liðin frá stofnun Evrópusamtaka ungra íhaldsmanna, en Samband ungra sjálfstæðismanna á Íslandi var eitt af þremur samtökum, sem höfðu forgöngu um stofnunina. Þótti þáverandi forystumönnum SUS önnur evrópsk æskulýðssamtök vera of höll undir báknið í Brussel. Margrét Thatcher, fyrrverandi forsætisráðherra Breta, var verndari Evrópusamtakanna allt frá byrjun, en Davíð Oddsson var í forsætisráðherratíð sinni einn af heiðursforsetum þess. Núverandi formaður samtakanna er breski fjármálafræðingurinn Tim Dier. Daniel Hannan, Íslandsvinur, evrópuþingmaður og ritari AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, var ræðumaður í hátíðarkvöldverði frelsisþingsins laugardaginn 21. september. Annar Íslandsvinur, Andrew Rosindell, sem situr í neðri málstofu breska þingsins, sleit þinginu 22. september. Rosindell var fyrsti formaður samtakanna, hefur oft komið til Íslands og á marga íslenska vini. Hann gat þess í ræðu sinni, að merki samtakanna væri íslensk svala á flugi, tákn frelsisins, og hefðu forystumenn samtakanna tekið það fram yfir stjörnuhringinn, sem væri merki Evrópusambandsins. Átta ungir sjálfstæðismenn sóttu frelsisþingið í Cambridge, en á frelsisþinginu voru um 120 fulltrúar frá 37 löndum. Þeim voru meðal annars sýnt skjalasafn Churchills, sem varðveitt er á Churchill-garði, þar sem frelsisþingið var haldið. Þátttaka Hannesar Hólmsteins í þinginu var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR um „Ísland, Evrópu og framtíð kapítalismans“, en AECR var helsti bakhjarl þingsins.

Hannes Hólmsteinn ræddi um efni fyrirlesturs síns í Cambridge við þá Frosta Logason og Mána Pétursson í útvarpsþættinum Harmageddon miðvikudagsmorguninn 25. september 2013.

Glærur Hannesar Cambridge