Sænska tímaritið Svensk Tidskrift birti 1. nóvember ritgerð eftir dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, rannsóknastjóra RNH, og er hún fyrri hlutinn í verki um frumherja norrænnar frjálshyggju. Var ritgerðin um Snorra Sturluson sagnritara, höfund Eddu, Heimskringlu og Egils sögu. Hannes kvað margar stjórnmálahugmyndir, sem John Locke og fleiri frjálshyggjuhugsuðir áttu síðar eftir að færa í kerfisbundinn búning, vera að finna í Heimskringlu og Egils sögu: Lögin ættu ekki að vera fyrirmæli að ofan, heldur sammæli alþýðu manna; konungar stjórnuðu með samþykki þegna sinna, en ekki af guðlegri náð; þannig hefði orðið til eins konar sáttmáli konungs og þegna, sem væru lausir mála, ryfi hann konungur. Þessar hugmyndir væru settar skýrt fram í tveimur frægum ræðum Heimskringlu, sem sænski lögmaðurinn Þórgnýr og íslenski bóndinn Einar Þveræingur fluttu, en þar segði Snorri hug sinn. Ályktun Einars Þveræings hefði síðan verið, þar eð konungar væru misjafnir, sumir góðir og aðrir vondir, að best væri að hafa engan konung. Þetta hefði Adam frá Brimum orðað svo, að Íslendingar hefðu ekki annan konung en lögin.
Hannes varpaði einnig fram þeirri hugmynd, að Íslendinga sögur hefðu verið færðar í letur sem eins konar viðbragð við ásælni Noregskonungs, sem tók að gæta um og upp úr 1220. Hefðu Íslendingar viljað marka sérstöðu sína gagnvart Norðmönnum. Egils saga væri til dæmis um deilur norsku konungsættarinnar við Egil Skallagrímsson, föður hans og afa. Sigurður Nordal hefði réttilega bent á, að Egill hefði verið „fyrsti einstaklingurinn“, með sérstakt svipmót og ekki skilgreinanlegur einvörðungu af uppruna sínum. Ritgerð Hannesar vakti mikla athygli í Svíþjóð, og mælti Svenska Dagbladet með henni 9. nóvember á leiðarasíðu sinni. Seinni hlutinn í verki Hannesar er um Anders Chydenius og birtist eftir viku.