Monthly Archives: June 2014

Samanburður þjóða fróðlegur

Glenn Cripe from Language of Liberty and Prof. Gissurarson, Curitiba Old City Hall.
Glenn Cripe from Language of Liberty and Prof. Gissurarson, Curitiba Old City Hall.

Sækja má á Netið margvísleg gögn til stuðnings frelsinu, sagði prófessor Hannes H. Gissurarson í erindi á ráðstefnu Brasilíusamtaka frjálslyndra stúdenta, Estudantes pela liberdade, í Curitiba í Brasilíu 31. maí 2014. Ráðstefnan var um frelsi á upplýsingaöld, en á meðal samstarfsaðila voru Friedrich Naumann Stiftung í Þýskalandi og stofnunin Language of Liberty í Bandaríkjunum. Í þessu sambandi nefndi Hannes vefsíður ýmissa rannsóknarstofnana, til dæmis Cato InstituteHeritage Foundation, Alþjóðabankans, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og ýmissa stofnana Sameinuðu þjóðanna, og gagnabanka eins og mælinguna á atvinnufrelsi um allan heim og vefsíðu Angusar Maddisons með sögulegum hagtölum. Hannes kvað tvo frjálslynda rithöfunda jafnan færa fram merkileg sjónarmið á vefsíðum sínum, þá Matt Ridley og Niall Ferguson. Í fyrirlestrinum sýndi Hannes ýmis línurit um misjafnt gengi sömu þjóðar við ólík hagkerfi, sem hann sótti í sögulegar hagtölur Maddisons, meðal annars samanburð á þróuninni í Vestur-Þýskalandi og Austur-Þýskalandi og í Suður-Kóreu og Norður-Kóreu. Hann sýndi einnig samanburð á þróuninni í löndum, sem væru um margt sambærileg, til dæmis norðlægum fylkjum Kanada (Manitoba) og ríkjum Bandaríkjanna (Minnesota og Suður-Dakóta) annars vegar og Norðurlöndum hins vegar. Norrænt fólk í Vesturheimi byggi við talsvert betri lífskjör en norrænt fólk á Norðurlöndum. Annar samanburður væri fróðlegur, á þróun Ástralíu og Argentínu. Þessar þjóðir voru jafnríkar 1929, áður en heimskreppan skall á, voru báðar komnar af innflytjendum frá Evrópu og búa við svipuð náttúruskilyrði. Nú hefði Argentína dregist langt aftur úr Ástralíu. Skýringin hlyti að liggja í ólíkum stofnunum þessara tveggja þjóða, leikreglum frekar en leikendum. Þá nefndi Hannes muninn á þróuninni í Singapúr og Jamaíku: Hvort tveggja væru lítil eylönd, fyrrverandi breskar nýlendur og í hitabeltinu. Um skeið hefði verg landsframleiðsla á mann verið hærri á Jamaíku en Singapúr. Nú hefði Jamaíka hins vegar dregist langt aftur úr Singapúr. Gæfumuninn gerði, að hagkerfið í Singapúr væri eitt hið frjálsasta í heimi.

Fyrirlestur Hannesar var þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Margvísleg gögn á Netinu styrkja frelsið

Hannes flytur fyrirlestur sinn í Porto Alegre.
Hannes flytur fyrirlestur sinn í Porto Alegre.

Netið er nægtabrunnur gagna, sem styrkja málstað frjálslynds fólks, sagði prófessor Hannes H. Gissurarson í fyrirlestri á ráðstefnu í Porto Alegre í Brasilíu 25. maí 2014. Brasilísku stúdentasamtökin Estudantes pela liberdade héldu ráðstefnuna, sem helguð var frelsi á upplýsingaöld. Samstarfsaðilar voru bandaríska stofnunin Language of Liberty og hin þýska Friedrich Naumann Stiftung. Hannes nefndi vefsíður ýmissa rannsóknarstofnana, til dæmis Cato InstituteHeritage Foundation, Alþjóðabankans, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og ýmissa stofnana Sameinuðu þjóðanna, og gagnabanka eins og mælinguna á atvinnufrelsi um allan heim. Frumleg og fróðleg sjónarmið gæti einnig að líta á vefsíðum frjálslyndra rithöfunda og fræðimanna, til dæmis hins vinsæla vísindarithöfundar Matts Ridleys og sagnfræðingsins Nialls Fergusons. Í fyrirlestrinum sýndi Hannes ýmis línurit, sem hann hafði gert með því að nýta sér slíkar heimasíður og gagnabanka. Eitt línuritið var til dæmis sótt á vefsíðu Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, FAO, og leiðir skýrt í ljós, hvernig afrakstur á hverja einingu ræktaðs lands hefur stóraukist síðustu áratugi, en þessi þróun hefur stundum verið nefnd „græna byltingin“. Kvað Hannes hrakspár Tómasar Malthusar í lok átjándu aldar um hraðari fólksfjölgun en aukningu matvælaframleiðslu ekki hafa ræst, en þessar spár hefðu bergmálað í Endimörkum vaxtarins 1974 og fleiri nýlegum ritum. Áttu þær að fela í sér endalok kapítalismans. Benti Hannes í því sambandi líka á, að dregið hefði úr fólksfjölgun síðustu áratugi.

Hér er fyrirlestur Hannesar á Youtube:

Fyrirlestur Hannesar var þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“. Hér er línurit hans um grænu byltinguna:

Grænabyltingin