Margvísleg gögn á Netinu styrkja frelsið

Hannes flytur fyrirlestur sinn í Porto Alegre.

Hannes flytur fyrirlestur sinn í Porto Alegre.

Netið er nægtabrunnur gagna, sem styrkja málstað frjálslynds fólks, sagði prófessor Hannes H. Gissurarson í fyrirlestri á ráðstefnu í Porto Alegre í Brasilíu 25. maí 2014. Brasilísku stúdentasamtökin Estudantes pela liberdade héldu ráðstefnuna, sem helguð var frelsi á upplýsingaöld. Samstarfsaðilar voru bandaríska stofnunin Language of Liberty og hin þýska Friedrich Naumann Stiftung. Hannes nefndi vefsíður ýmissa rannsóknarstofnana, til dæmis Cato InstituteHeritage Foundation, Alþjóðabankans, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og ýmissa stofnana Sameinuðu þjóðanna, og gagnabanka eins og mælinguna á atvinnufrelsi um allan heim. Frumleg og fróðleg sjónarmið gæti einnig að líta á vefsíðum frjálslyndra rithöfunda og fræðimanna, til dæmis hins vinsæla vísindarithöfundar Matts Ridleys og sagnfræðingsins Nialls Fergusons. Í fyrirlestrinum sýndi Hannes ýmis línurit, sem hann hafði gert með því að nýta sér slíkar heimasíður og gagnabanka. Eitt línuritið var til dæmis sótt á vefsíðu Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, FAO, og leiðir skýrt í ljós, hvernig afrakstur á hverja einingu ræktaðs lands hefur stóraukist síðustu áratugi, en þessi þróun hefur stundum verið nefnd „græna byltingin“. Kvað Hannes hrakspár Tómasar Malthusar í lok átjándu aldar um hraðari fólksfjölgun en aukningu matvælaframleiðslu ekki hafa ræst, en þessar spár hefðu bergmálað í Endimörkum vaxtarins 1974 og fleiri nýlegum ritum. Áttu þær að fela í sér endalok kapítalismans. Benti Hannes í því sambandi líka á, að dregið hefði úr fólksfjölgun síðustu áratugi.

Hér er fyrirlestur Hannesar á Youtube:

Fyrirlestur Hannesar var þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“. Hér er línurit hans um grænu byltinguna:

Grænabyltingin