100 ára alræðisstjórn kommúnista

Í tilefni hundrað ára afmælis rússnesku byltingarinnar, valdaráns Vladímírs Leníns og félaga hans í Pétursborg 7. nóvember 1917, gefur RNH í samstarfi við Almenna bókafélagið út röð verka um reynsluna af hundrað ára alræðisstjórn kommúnista. Fyrst ber að nefna tveggja binda rit um frumsögu íslensku kommúnistahreyfingarinnar eftir sagnfræðinginn og skákmanninn Snorra G. Bergsson: Roðinn í austri um tímabilið 1919–1924 og Rauða fána um tímabilið 1925–1930. Áður hafði Snorri veitt tveimur háskólaprófessorum aðstoð við undirbúning bóka þeirra: Þór Whitehead í Sovét-Íslandi: Óskalandinu (2010) og Hannesi H. Gissurarsyni í Íslenskum kommúnistum 1918–1998 (2011).

 

Í annan stað sér rannsóknastjóri RNH, prófessor Hannes H. Gissurarson um útgáfu þriggja verka um alræðisstjórn kommúnista, sem endurprentuð eru á hundrað ára afmæli rússnesku byltingarinnar. Ráðstjórnarríkin: Goðsagnir og veruleiki eftir ungverska rithöfundinn Arthur Koestler varð þrætuepli fyrir bæjarstjórnarkosningar í Reykjavík 1946; Ég kaus frelsið eftir rússneska flóttamanninn Víktor Kravtsjenko kom út hjá Prentsmiðju Austurlands 1951; Nytsamur sakleysingi eftir norska sjómanninn Otto Larsen var ein af fyrstu útgáfuritum Almenna bókafélagsins 1956. Tilgangurinn með endurprentun þessara verka ásamt formálum og skýringum er að gera þau aðgengilegum nýjum kynslóðum nemenda og fræðimanna. Þetta tilefni er einnig notað til að heiðra minningu þriggja ötulla baráttumanna gegn alræðisstefnum, Valtýs Stefánssonar ritstjóra, Lárusar Jóhannessonar hæstaréttarlögmanns og Eyjólfs Konráðs Jónssonar, ritstjóra og alþingismanns.

Útkoma þessara þriggja bóka á byltingarafmælinu 7. nóvember 2017 er liður í samstarfsverkefni RNH og ýmissa alþjóðlegra samtaka, „Evrópa fórnarlambanna.“