AB fær frelsisverðlaun

Jón Þorláksson forsætisráðherra horfir með velþóknun á verðlaunahafana og formann SUS í Valhöll 21. ágúst 2016.

Almenna bókafélagið, sem starfar með RNH, fékk árið 2016 frelsisverðlaun Kjartans Gunnarssonar, sem Samband ungra sjálfstæðismanna veitir og kennir við Kjartan Gunnarsson, lögfræðing og fyrrverandi framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, sem hefur löngum verið einn ötulasti baráttumaðurinn fyrir frelsi á Íslandi. Jónas Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri Almenna bókafélagsins, tók við verðlaununum 21. júlí úr hendi Laufeyjar Rúnar Ketilsdóttur, formanns SUS. Verðlaunin eru veitt einum lögaðila og einum einstaklingi árlega. Sigríður Á. Andersen alþingismaður hlaut verðlaun sem einstaklingur, en hún hefur verið öðrum djarfari við að halda uppi merki einstaklingsfrelsisins á þingi.

Jónas sagði í ræðu sinni við afhendinguna, að einn helsti vandi íslenskra bókaútgefenda væri, að ólíkt öðrum löndum hefði ríkið lagt undir sig allt að fjórðungi bókaútgáfunnar. Það gæfi út námsbækur í skólum, en það tíðkaðist óvíða annars staðar. Það stundaði líka umfangsmikla hljóðbókaútgáfu endurgjaldslaust, en við það yrðu bókaútgefendur af miklum tekjum. Sigríður tók í sama streng í ræðu sinni. Hún kvað frelsið krefjast jafnræðis í samkeppni, en stundum nytu einstakir aðilar óeðlilegrar fyrirgreiðslu eða ívilnana frá hinu opinbera.

Almenna bókafélagið hefur síðustu árin gefið út margar bækur til varnar frelsinu og gegn alræði nasista og kommúnista. Árið 2011 komu út Íslenskir kommúnistar 1918–1998 eftir Hannes H. Gissurarson prófessor og Icesave-samningarnir. Afleikur aldarinnar eftir Sigurð Má Jónsson blaðamann; árið 2012 Uppsprettan (The Fountainhead) eftir Ayn Rand; árið 2013 Búsáhaldabyltingin: Sjálfsprottin eða skipulögð? eftir Stefan Gunnar Sveinsson sagnfræðing og Undirstaðan (Atlas Shrugged) eftir Ayn Rand; árið 2014 Heimur batnandi fer (The Rational Optimist) eftir Matt Ridley, Tekjudreifing og skattar eftir Ragnar Árnason prófessor og fleiri og Kíra Argúnova (We the Living) eftir Ayn Rand; árið 2015 Andersen-skjölin eftir Eggert Skúlason ritstjóra, Greinar um kommúnisma eftir Bertrand Russell heimspeking, Konur í þrælakistum Stalíns eftir Elinor Lipper og Aino Kuusinen, Úr álögum (Out of the Night) eftir ævintýramanninn Jan Valtin (Richard Krebs), Eftirlýstur (Red Notice) eftir bandaríska fjárfestinn Bill Browder og Barnið sem varð að harðstjóra eftir blaðamanninn Boga Arason.

Á meðal næstu bóka eru Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum eftir Ants Oras prófessor frá 1955 og Eistland. Smáþjóð undir oki erlends valds frá 1973 eftir Andres Küng. Þær eru endurútgefnar 26. ágúst, þegar aldarfjórðungur er liðinn frá því, að Ísland endurnýjaði viðurkenningu sína á Eystrasaltsríkjunum við hátíðlega athöfn í Höfða. Haldið verður útgáfuhóf, sem Davíð Oddsson mun ávarpa, en hann þýddi Eistlandsbók Küngs, á meðan hann var í háskóla, og hann var forsætisráðherra, þegar viðurkenningin á Eystrasaltsríkjunum var endurnýjuð. Hann beitti sér líka sem forsætisráðherra fyrir því, að Eystrasaltsríkin fengju aðild að Atlantshafsbandalaginu. Einnig eru væntanlegir við þetta tækifæri gestir frá Eistlandi í samráði við Unitas stofnunina í Tallinn. Þá er væntanleg íslensk þýðing á Siðmenning. Vesturlönd og önnur lönd  (Civilization. The West and the Rest) eftir breska sagnfræðinginn Niall Ferguson. AB stefnir líka að því að gefa út síðari hluta Auðlegðar þjóðanna (The Wealth of Nations) eftir Adam Smith, en fyrri hlutinn kom út fyrir mörgum árum í vandaðri þýðingu Þorbergs Þórssonar. Snorri G. Bergsson sagnfræðingur hefur í smíðum tvær bækur fyrir AB, annars vegar um flóttamenn á Íslandi árin fyrir heimsstyrjöldina síðari, hins vegar um frumsögu íslensku kommúnistahreyfingarinnar.