Deilt um alræðishugtakið

Almenna bókafélagið gaf 1. desember 2018 út bókina Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Höfundar voru Tómas Guðmundsson, Gunnar Gunnarsson, Kristmann Guðmundsson, Guðmundur G. Hagalín, Sigurður Einarsson í Holti og Davíð Stefánsson frá Fagraskógi. Hannes H. Gissurarson prófessor skrifaði 40 blaðsíðna formála og 70 blaðsíðna skýringar aftanmáls. Í formálanum lýsti hann menningarbaráttu Kalda stríðsins, þar sem höfundarnir sex voru þátttakendur, og beitti alræðishugtakinu, en Tómas Guðmundsson hafði einmitt í ræðu sinni gegn kommúnisma kveðið nýja tegund þrælkunar hafa orðið til, andlega þrælkun. Menn þurftu ekki aðeins að hlýða Stóra bróður, heldur líka elska hann.

Hayek á Íslandi 1980.

Á málstofu RNH og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála í Háskóla Íslands 17. maí 2019 gagnrýndi dr. Stefán Snævarr, heimspekiprófessor í Háskólanum í Lillehammer í Noregi, alræðishugtakið eins og Hannes hafði beitt því í formálanum. Það væri af og frá, að nasisminn væri sósíalismi í hefðbundinni merkingu þess orðs, enda hefði nasistar stuðst við einkaframtak. Sósíalisminn væri ekki heldur „leiðin til ánauðar“ eins og Friedrich A. von Hayek hefði haldið fram í frægri bók. Áætlunarbúskapur og lýðræði gætu farið saman. Hannes svaraði því til, að sósíalismi væri til í tveimur gerðum, sjálfvalinn og valdboðinn. Hann hefði ekkert á móti sjálfvöldum sósíalisma, til dæmis í framleiðslusamvinnufélögum eða samyrkjubúum í Ísrael, enda væri frjálsræðisskipulagið aðallega vettvangur fyrir frjálst val einstaklinganna. Valdboðinn sósíalismi fæli hins vegar alltaf í sér kúgun: Ríkið hygðist reka menn í hina „réttu“ átt. Auðvitað væri hinn mjúki vöggustofusósíalismi sænskra jafnaðarmanna miklu skárri en harður vinnubúðasósíalismi rússneskra kommúnista, en frjálshyggjumenn höfnuðu hvoru tveggja og teldu einstaklingana eiga að ráða sér sjálfum og bera fulla ábyrgð á sér sjálfum.

Morgunblaðið birti frétt um málstofuna 6. júní: