Fyrirlestrar fluttir víða árið 2014

aquinas

Heilagur Tómas af Aquino

Dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði og forstöðumaður rannsókna RNH, flytur víða fyrirlestra árið 2014 um ýmis efni, sem tengjast rannsóknarverkefnum stofnunarinnar.

1. Á vorráðstefnu viðskiptafræðistofnunar Háskóla Íslands föstudaginn 14. mars kl. 11.30 í málstofu 2 í Gimli 102 ræðir hann um viðskiptasiðferði og eignasölu banka eftir fall þeirra. Hann kynnir fyrst helstu niðurstöður heilags Tómasar af Aquino um viðskiptasiðferði. Þótt hinn kaþólski dýrlingur teldi, að aðvífandi kaupmaður mætti að ósekja taka hæsta tilboði í vöru sína (Summa Theologiæ, II, II, 77, 3), var hann einnig þeirrar skoðunar, að maður mætti ekki nýta sér tímabundna neyð granna sinna til að setja þeim afarkosti í viðskiptum (Summa Theologiæ, II, II, 66, 7). Slík viðskipti væru ekki réttlát. Hannes greinir síðan þrjú dæmi um skyndisölu eigna bankanna erlendis strax eftir fall þeirra í fyrstu viku október 2008, öll tengd Glitni á Norðurlöndum,  og veltir því fyrir sér, hvort þau viðskipti hafi verið óréttlát í skilningi heilags Tómasar og fleiri heimspekinga, svo sem frjálshyggjumannanna Friedrichs von Hayeks og Roberts Nozicks (sem ræða þetta í sambandi við frægt dæmi um afnot af vatnsból í eyðimerkurvin). Hannes reynir einnig að meta tjónið af skyndisölunni í þessum þremur dæmum, sem er aðeins hluti af heildartjóninu af falli bankanna. Fyrirlestur Hannesar er þáttur í rannsóknarverkefni hans um erlenda áhrifaþætti íslenska bankahrunsins og einnig þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

2. Á ársfundi Evrópusamtaka frjálshyggjustúdenta, European Students for Liberty, í Humboldt-háskólanum í Berlín 14.–16. mars ræðir Hannes um fall íslensku bankanna, viðbrögð stjórnvalda og þá lærdóma, sem Evrópuþjóðir geti dregið af því. Fyrirlestur hans er kl. 13.30–14.15 laugardaginn 15. mars. Margir kunnir rithöfundar, fræðimenn og álitsgjafar tala á ársfundinum, svo sem sagnfræðingurinn Johan Norberg frá Svíþjóð, dr. Tom Palmer frá Atlas-stofnuninni og dr. Daniel Mitchell frá Cato-stofnuninni, sem báðar starfa í Washington-borg í Bandaríkjunum, prófessor Kewin Dowd frá Englandi, dr. Karen Horn, kennari í Humboldt-háskólanum og fyrrv. viðskiptaritstjóri Frankfurter Allgemeine Zeitung, prófessor Charles Blankart, Humboldt-háskólanum, prófessor Ilya Somin, George Mason-háskólanum í Virginíu í Bandaríkjunum, dr. Alberto Mingardi, forstöðumaður Bruno Leoni-stofnunarinnar á Ítalíu, og Matthew Sinclair, forstöðumaður Samtaka breskra skattgreiðenda. Fyrirlestur Hannesar er þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

3. Á fundi Framsóknar, sem er nýstofnaður stjórnmálaflokkur í Færeyjum, 22. mars 2014 kl. 14 í samkomuhúsinu Østrøm í Þórshöfn flytur Hannes erindi um vanda og tækifæri smáþjóða. Segir í kynningu á færeysku: „Hann luttekur javnan í íslendska samfelagskjakinum, har hann serliga er kendur fyri sínur greiðu meiningar og at hann ikki ræðist fyri at siga sannleikan sum hann sær hann.“ Poul Michelsen er formaður flokksins, en hann var bæjarstjóri í Þórshöfn 1981–1992. Á fundinum flytur tónlistarmaðurinn og söngvarinn Høgni Reistrup einnig erindi, en hann gaf út fyrir skömmu bók um fólksflóttann frá Færeyjum.

Landsbanki.logo_

4. Á árlegri ráðstefnu APEE, Association of Private Enterprise Education, bandarískra samtaka um kennslu í framtaksfræðum, 13.–15. apríl í Las Vegas í Nevada í Bandaríkjunum, ræðir Hannes um skýringar á falli íslensku bankanna. Erindi hans er á málstofu kl. 2.55–4.10 síðdegis mánudaginn 14. apríl, sem Anna Sachko Gandolfi stjórnar. Hannes vísar þar á bug tveimur algengum skýringum á falli bankanna. Önnur er, að það hafi orðið vegna nýfrjálshyggjutilraunar Davíðs Oddssonar. Tvær staðreyndir nægja til að hnekkja þeirri skýringu að sögn Hannesar. Útrás bankanna erlendis hófst af alvöru 2004, sama ár og Davíð lét af starfi forsætisráðherra. Hin staðreyndin og mikilvægari er, að á Íslandi giltu nákvæmlega sömu reglur um fjármálamarkaði og í öðrum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu, þar á meðal öllum ríkjum Evrópusambandsins. Hin skýringin er, að íslenskir bankamenn hafi verið miklu óreyndari og fífldjarfari en starfsbræður þeirra og -systur erlendis. Hannes færir tvær röksemdir gegn þessari skýringu. Íslenskir bankamenn hafi fengið lán frá erlendum bankamönnum, og þá þurfi að skýra, hvers vegna þessir erlendu bankamenn voru svo fífldjarfir og óreyndir að gera það. Í öðru lagi hafi komið í ljós, að margir erlendir bankar hafi riðað til falls í hinni alþjóðlegu lánsfjárkreppu, til dæmis UBS í Sviss, RBS í Bretlandi og Danske Bank í Danmörku, en þeim hafi verið bjargað, meðal annars vegna þess að seðlabankar hafi margir getað gert gjaldeyrisskiptasamninga við bandaríska seðlabankann. Hannes hefur áður flutt erindi á ársfundum samtakanna APEE og birt ritgerðir í tímariti þeirra, Journal of Private Enterprise. Erindi hans er liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans.

5.–6. Hannes flytur ræður á tveimur ráðstefnum Estudentes pela Liberdade (Brasilíudeild Students for Liberty) og Friedrich Naumann Stiftung, í Porto Alegre 24.–25. maí og Curitiba 30.–31. maí. Fyrirlestur hans í Porto Alegre verður í IEGE (Instituto de Estudos em Gestão Empresarial), Praça Japão, 13, kl. 14 sunnudaginn 25. maí. Fyrirlestur hans í Curitiba verður í Universidade Positivo, Rua Prof. Pedro Viriato Parigot de Souza, 5300, kl. 16.45 laugardaginn 31. maí. Hann ræðir um Netið sem bandamann frelsisins. Hrakspá Orwells um, að Stóri bróðir tæki tæknina í sína þjónustu í því skyni að fylgjast með fólki hefði ekki ræst nema að litlu leyti. Almenningur gæti notað sömu tækni til að snúa á Stóra bróður, hvort sem hann væri einkafyrirtæki með einokunartilburði eða opinber stofnun með eftirlitsáráttu. Netið væri líka ómetanlegur fjársjóður upplýsinga. Heimasíður Atlas NetworkCato InstituteHeritage FoundationLiberty FundAEI (American Enterprise Institute), Hoover InstitutionInstitute for Humane StudiesInstitute of Economic AffairsAdam Smith Institute og annarra hugveitna væru barmafullar af gagnlegum upplýsingum. Einnig væru gagnabankar eins og vísitala atvinnufrelsis (Index of Economic Freedom), tölur Angusar Maddisons um hagvöxt og framleiðslu einstakra ríkja langt aftur í tímann, hagrannsóknadeildin í Seðlabankanum í St. Louis, EurostatOECDAlþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gagnlegir. Sýnir Hannes mörg línurit, sem hann hefur gert upp úr þessum gögnum, máli sínu til stuðnings. Erindi hans er liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

PSM_V03_D380_John_Stuart_Mill

J. S. Mill

7. Á ráðstefnu Norrænu rannsóknarstofnunarinnar um karla og karlmennsku, Nordic Association for Research on Men and Masculinities, sem velferðarráðuneytið og norræna ráðherranefndin styrkja, í Reykjavík 4.–6. júní 2014 flytur Hannes fyrirlestur undir heitinu „Kúgun karla?“ (The Subjection of Men?) Heitið vísar til bókar Johns Stuarts Mills um Kúgun kvenna, sem hefur tvisvar komið út á íslensku. Hann er á málstofu í Öskju, stofu 130, kl. 9–11 föstudaginn 6. júní. Í fyrirlestrinum bendir Hannes á, að hugtökin karlmennska og kvenleiki beina lífsháttum manna og starfsvali á ákveðnar brautir, þótt hæpið sé að tala um kúgunareðli þeirra. Þegar samanburðargögn um kyn eru skoðuð, lífslíkur, sjálfsvíg, dánartíðni af slysförum, ofdrykkja, fíkniefnaneysla, glæpatíðni, fangelsisvist og kynskipti, virðist kröfur karlmennskunnar erfiðari og þrengja val manna miklu frekar en kröfur kvenleikans. Konur virðast una hlutskipti sínu betur en karlar, vera hamingjusamari. Þótt karlar hafi að jafnaði hærri tekjur en konur, hefur sú staðreynd takmarkað gildi í augum þeirra, sem telja peninga ekki skapa lífshamingju. Oft er launamunur kynjanna einnig rekjanlegur til sjálfvalinnar verkaskiptingar í hjónabandi.

8. Á ráðstefnu Evrópuvettvangs minningar og samvisku, Konrad Adenauer Stiftung og annarra aðila 12.–13. júní 2014 í Prag fær leiðtogi Krím-Tatata, Mustafa Dzhemilev, verðlaun vettvangsins fyrir þrotlausa baráttu sína fyrir réttindum þjóðar sinnar, sem bjó löngum á Krímskaga, en var flutt nauðungarflutningum til Úsbekistan í lok seinni heimsstyrjaldar. RNH er aðili að vettvangnum, og verður Hannes H. Gissurarson viðstaddur verðlaunaafhendinguna og tekur þátt í ráðstefnunni, sem er um „Arfleifð alræðisstefnunnar“ og fer fram í þinghöllinni í Prag. Þátttaka hans í ráðstefnunni er liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“.

9. Hannes sækir málstofu Evrópuvettvangs minningar og samvisku, Konrad Adenauer Stiftung og annarra aðila í Prag 29. júlí um það, hvernig tryggja megi fórnarlömbum kommúnismans réttlæti, en mörg þeirra eru enn á lífi og raunar líka sumir þeir, sem á þeim brutu. Þátttaka hans í málstofunni er liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“.

Coat_of_arms_of_Iceland

10. Á árlegri ráðstefnu norrænu stjórnmálafræðingasamtakanna, Nordic Political Science Association, í Gautaborg í Svíþjóð 12.–15. ágúst flytur Hannes þrjú erindi. Eitt er á málstofu um „International Courts and Domestic Politics“, sem Johan Karlsson Schaffer leiðir, þriðjudaginn 12. ágúst kl. 13.30–14.30. Þar ræðir Hannes um Icesave-deiluna milli Íslendinga annars vegar og Breta og Hollendinga hins vegar, afstöðu Norðurlandaþjóðanna og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, tilraunir til samninga, úrskurð EFTA-dómstólsins og áhrif málsins á íslensk stjórnmál. Andmælandi er Matthew Saul, sem stundar rannsóknir í laga- og mannréttindastofnun Oslóarháskóla.

11. Annað erindið er á málstofu um „International Political Theory“, sem Göran Duus-Otterström leiðir, fimmtudaginn 14. ágúst kl. 8.45–9.45. Erindi Hannesar þar nefnist: „Why Was Iceland Left Out in the Cold?“ Hann lýsir því, hvernig smáþjóðir hafa jafnan orðið að sætta sig við forræði stærri þjóða, sem komið hafi misjafnlega fram við þær. Ísland hafi á 20. öld aðallega hallað sér að Bretum og Bandaríkjunum. Landið hafi hins vegar reynst vera vinalaust haustið 2008. Bandaríski seðlabankinn hafi gert gjaldeyrisskiptasamninga við seðlabanka Svíþjóðar, Noregs og Danmerkur, en neitað seðlabanka Íslands um slíkan samning. Bretar hafi neitað íslenskum bönkum í Bretlandi um aðild að aðstoð við banka í lausafjárvanda, sem veitt var í hinni alþjóðlegu fjármálakreppu, og jafnvel beitt hryðjuverkalögum á einn bankann og um skeið á seðlabankann íslenska og fjármálaráðuneytið. Andmælandi er Aaron Maltais, sem stundar rannsóknir í stjórnmálafræðideild Stokkhólmsháskóla.

Logo-svislé

12. Þriðja erindið er á málstofu, sem Anders Lindbom leiðir, fimmtudaginn 14. ágúst kl. 13.00–15.00 um „The Nordic Welfare Model in Transition“ og nefnist: „The Icelandic Welfare State: Nordic or Anglo-Saxon?“ Þar ræðir Hannes um þróun áranna 1991–2004, þegar miklar breytingar urðu á íslenska hagkerfinu, sérstaklega áhrifin á tekjuskiptingu og lífskjör. Hann leiðir rök að því, að þá hafi Íslendingar ekki vikið af hinni norrænu leið á hina engilsaxnesku, eins og oft hafi verið haldið fram, heldur markað sér séríslenska leið. Fátækt og útskúfun hafi verið minni á Íslandi en víðast annars staðar. Lífskjör allra hópa hafi hins vegar versnað eftir fall bankanna, sérstaklega þó tekjuhærri hópanna. Andmælandi er Stephan Köppe, sem stundar rannsóknir á norrænum velferðarríkjum í Háskólanum í Dundee. Fyrirlestrar Hannesar í Gautaborg eru þættir í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Henný Goldstein-Ottósson.

Henný Goldstein-Ottósson.

13. Á 28. norræna sagnfræðingamótinu í Joensuu í Finnlandi 14.–17. ágúst flytur Hannes fyrirlestur á sérstakri málstofu um meginstef mótsins, „Crossovers – Borders and Encounters in the Nordic Space“. Málstofan er kl. 8–11 laugardaginn 16. ágúst í Metria House í Háskólanum í Joensuu, og stjórnar henni finnski sagnfræðingurinn Jouko Nurmiainen. Erindi Hannesar nefnist „Two Germans in pre-war Iceland, and their later strange encounter“. Er það um einkennileg örlög tvegga Þjóðverja, sem dvöldust á Íslandi fyrir stríð. Annar var nasisti, dr. Bruno Kress, sem kenndi þýsku og stundaði rannsóknir á íslensku máli á vegum Ahnenerbe, rannsóknarstofnunar SS-sveita Heinrichs Himmlers. Hinn var flóttamaður af gyðingaættum, Henný Goldstein, sem kom hingað með son sinn og móður. Öðrum bróður Hennýar tókst líka að komast til Íslands fyrir stríð, en hinn lét lífið í rannsókn, sem Ahnenerbe, rannsóknarstofnun SS-sveitanna, gerði á höfuðlagi og hauskúpum gyðinga í Natzweiler-fangabúðunum nálægt Strassborg. Þegar Bretar hernámu Ísland, handtóku þeir Kress og vistuðu á eynni Mön, uns hann var sendur til Þýskalands í fangaskiptum. Henný giftist hins vegar íslenskum manni og gerðist íslenskur ríkisborgari. Vorið 1958 bar fundum þeirra Kress og Hennýar aftur saman í sextugsafmæli Brynjólfs Bjarnasonar. Kress var þá orðinn kommúnisti og forstöðumaður norrænu stofnunarinnar í Greifswald í Austur-Þýskalandi, en eiginmaður Hennýar var frammámaður í Sósíalistaflokknum. Varð nokkurt uppnám í veislunni, þegar þau Kress og Henný hittust, og hlutust af blaðaskrif og bréfaskipti milli Kress og Einars Olgeirssonar. Á meðal annarra íslenskra fyrirlesara eru Hrefna Róbertsdóttir, prófessor Anna Agnarsdóttir, Ólafur Rastrick, Margrét Gunnarsdóttir, Sverrir Jakobsson, prófessor Guðmundur Jónsson, Ragnheiður Kristjánsdóttir og Sumarliði Ísleifsson. Erindi Hannesar er þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“.

14. Hannes sækir ráðstefnu alþjóðlegs málfundafélags frjálslyndra fræðimanna, Mont Pelerin samtakanna, í Hong Kong 31. ágúst–5. september, sem er að þessu sinni helguð framförum í Asíu og framtíð frelsisins. Hannes hefur verið félagi í samtökunum frá 1984 og sat í stjórn þeirra 1998–2005. Hann skipulagði svæðisþing þeirra á Íslandi 2005. Þátttaka hans í ráðstefnunni er liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Hayekeldri

F. A. Hayek

15. Á ráðstefnu um boðskap F. A. Hayeks í Manhattanville College, Purchase, New York, sem Economic Freedom Institute heldur helgina 10.–12. október, flytur Hannes fyrirlestur um „Spontaneous Evolution: Three Icelandic Examples“ (sjálfsprottna þróun: þrjú íslensk dæmi). Eitt þeirra er ítalan, sem var beitarréttur og fylgdi hverri jörð, en hann takmarkaði ofbeit á fjöllum. Nafnið er dregið af því, að talið var í afréttina. Annað dæmi er verðtrygging krónunnar, sem jafngildir því í raun að taka upp annan gjaldmiðil, verðtryggða krónu, til að gera í langtímasamninga. Hið þriðja er þróun kvótakerfisins í sjávarútvegi, kerfis varanlegra og seljanlegra kvóta, sem er um margt hliðstætt ítölunni að fornu: Hver útgerðarmaður fékk hlutdeild í heildaraflanum í réttu hlutfalli við afla sinn áður. Þannig tekst að loka fiskimiðunum án þess að skerða hagsmuni neinna þeirra, sem áður nýttu þá, og takmarka sóknina við það, sem hagkvæmast er. Þessi þróun var að sumu leyti sjálfsprottin frekar en skipulögð, þótt lagasetningu þyrfti vissulega stundum til. Þátttaka Hannesar í ráðstefnunni er liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Balzac

Balzac skrifaði um fallvaltleika auðsins

16. Á þingi European Students for Liberty í Björgvin í Noregi laugardaginn 18. október talar Hannes um nýja bók franska hagfræðingsins Tómasar Pikettys, en hann virðist ætla að leysa John Rawls af hólmi sem helsti spekingur vinstri manna. En munurinn er sá, að Rawls hafði áhyggjur af fátæku fólki, en Piketty af ríku. Hannes ræðir þau vandkvæði, sem séu á að mæla tekjudreifingu, ekki aðeins með Gini-stuðlum, heldur einnig með aðferð Pikettys, sem er að skoða hlut 1% eða 10% tekjuhæsta hópsins í heildartekjum. Þessi hlutur getur ráðist af utanaðkomandi stærðum eins og fjölda námsfólks og ellilífeyrisþega (fjölgun fólks í þessum hópum hækkar hlut tekjuhæsta hópsins á einu ári, þótt hún sé ekki til marks um ójafnari tekjudreifingu milli hópa, heldur ójafnari tekjudreifing innan mannsævinnar). Einnig sé vafasamt, að fjármagn ávaxtist ætíð hraðar en atvinnulífið vex, að r > g, eins og Piketty haldi fram. Ekki þurfi annað en lesa skáldsögur Balzacs, sem Piketty vitni óspart í, til að sjá, að auðurinn sé fallvaltur vinur. Þátttaka hans í þinginu er liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

17. Í Þjóðarspeglinum, árlegri uppskeruhátíð íslenskra félagsvísindamanna, föstudaginn 31. október í Háskóla Íslands heldur Hannes erindi um viðhorf breskra ráðamanna til Íslands fyrir bankahrunið, ekki síst Alistairs Darlings fjármálaráðherra, hvað hafi valdið þeim og hverju þau kunni að hafa breytt. Hann bendir á ýmsar villur í lýsingu Darlings á íslenskum bankamönnum og stjórnmálamönnum og á atburðarásinni fyrir og í bankahruninu. Þátttaka hans í ráðstefnunni er liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

18. Á þingi European Students for Liberty í Reykjavík laugardaginn 15. nóvember flytur Hannes fyrirlestur um viðhorf í hugmyndabaráttunni. Þátttaka hans í þinginu er liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Alistair Darling

Alistair Darling

19. Á fundi IEA, Institute of Economic Affairs, í Lundúnum 27. nóvember 2014 flytur Hannes erindi um samskipti Íslendinga og Breta í bankakreppunni og eftir það, og ber það yfirskriftina „Why Was Iceland Left Out in the Cold? And Kept There?“ Hann ræðir meðal annars um samtöl breskra og íslenskra ráðamanna í aðdraganda bankahrunsins 7. október 2008, lokun útbús Landsbankans í Lundúnum, Heritable Bank og KSF, Kaupthing Singer & Friedlander, setningu hryðjuverkalaganna daginn eftir og áhrif hennar og Icesave-deiluna, sem stóð 2008 til 2013. Erindi hans á fundinum er liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Gissurarson Slides in Berlin 14 March 2014

Gissurarson Slides in Las Vegas 13 April 2014

Gissurarson Slides in Porto Alegre 25 May 2014

Glærur Hannesar í Gautaborg 13. ágúst 2014

Gærur Hannesar að morgni 14. ágúst 2014

Glærur Hannesar í Gautaborg 14. júlí eftir hádegi 2014

Glærur Hannesar í Joensuu 16. ágúst 2014