Hannes: Ísland líti í báðar áttir

Frá v.: Salvör Nordal, Hulda Þórisdóttir, Kristrún Heimisdóttir, Ásgeir Jónsson og Hannes. Ljósm. Kristinn Ingvarsson.

Prófessor Hannes H. Gissurarson, rannsóknastjóri RNH, var einn framsögumanna á ráðstefnuAlþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, utanríkisráðuneytisins og fleiri aðila um, hvert Ísland stefndi, í Norræna húsinu miðvikudaginn 19. apríl 2017. Hannes rifjaði upp, að rómverski guðinn Janus hafði tvær ásjónur, og sneru þær hvor í sína átt. Íslandi væri eins farið. Það væri á miðju Norður-Atlantshafi og yrði að snúa í senn í vestur og austur. Það væri hæpið, sem prófessorarnir Anne Sibert og Baldur Þórhallsson hefðu haldið fram eftir bankahrun, að Ísland væri of lítið til að geta staðist og yrði þess vegna að skríða í skjól Evrópusambandsins. Rök Jóns Sigurðssonar fyrir sjálfstæði Íslands væru enn í fullu gildi. Smáríkjum hefði einmitt fjölgað stórkostlega á 20. öld af tveimur ástæðum. Við frjáls alþjóðaviðskipti nytu þau ábata af frjálsum alþjóðaviðskiptum, og aukið lýðræði hefði líka haft í för með sér almennari viðurkenningu á sjálfsákvörðunarrétti smáþjóða. Hannes benti á, að sumt væri ódýrara að meðaltali í smáríkjum, til dæmis löggæsla, því að lítil ríki væru oftast samleitari en stór, traust manna í milli meira og aðhald í krafti gagnsæis virkara. Hagkerfi lítilla ríkja væri ósjaldan opnari og sveigjanlegri en stórra, enda væru þau að jafnaði auðugri.

Hagsmunir Íslendinga væru skýrir, þröngir og raunhæfir: Þeir snerust um að selja fisk og aðra vöru og þjónustu og tryggja öryggi í herlausu landi, sagði Hannes. Vitnaði hann í Bjarna Benediktsson forsætisráðherra, sem sagt hefði, að virðing smáþjóða á alþjóðavettvangi stæði í öfugu hlutfalli við mælgi þeirra þar. Þótt Íslendingar hefðu í hinni alþjóðlegu lánsfjárkreppu orðið fyrir sárum vonbrigðum með forna bandamenn, ættu þeir í utanríkismálum um tvo kosti að velja. Annar væri Atlantshafskosturinn, aukið samstarf við grannríkin á Norður-Atlantshafi, Noreg, Stóra Bretland, Bandaríkin og Kanada að ógleymdum vinum í Færeyjum og Grænlandi. Hinn væri Evrópusambandskosturinn, aukið samstarf við ríkin á meginlandi Evrópu. Þótt annar kosturinn útilokaði ekki hinn, væri Atlantshafskosturinn samt eðlilegri og skárri, enda væri Bretlandi stærsti viðskiptavinur okkar og Bandaríkin öflugasta herveldi heims og á færi fárra annarra en þeirra að halda hér uppi vörnum. Engilsaxnesku stórveldin og Norðurlönd væru líka í fararbroddi um frelsi og mannréttindi í heiminum. Íslendingar mættu hins vegar ekki týna sjálfum sér, slíta sálufélagið við Egil og Snorra, Njáluhöfund, Hallgrím og Jónas. Þótt Íslendingar þyrftu að vita af smæð sinni, mættu þeir ekki láta hana smækka sig, heldur stækka.

Dr. Ásgeir Jónsson, dósent og forseti hagfræðideildar, sagði, að peningalegt fullveldi hefði reynst Íslendingum vel til að komast út úr bankahruninu, en til langs tíma litið hefði það valdið óstöðugleika. Dr. Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar, gerði greinarmun á fullveldi og sjálfræði og kvað þjóðir oft vera í orði kveðnu fullvalda, þótt þær væru í raun lítt sjálfráðar. Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur, fyrrverandi aðstoðarkona utanríkisráðherra, taldi, að komið hefði í ljós í bankahruninu, hversu einir á báti Íslendingar reru. Þeir yrðu að endurmeta öryggisstefnu sína í viðsjálli veröld. Dr. Hulda Þórisdóttir kynnti nokkrar niðurstöður úr rannsóknum, sem sýna, að gagnkvæmt traust hefur lítt minnkað á Íslandi, og mælist það meira á Norðurlöndum en víðast annars staðar. Hannes benti í því tilefni á, að samheldni og traust væru mikilvægar skýringar á velgengni Norðurlanda. Hann tók einnig undir þá skoðun Kristrúnar, að verulegur munur væri á kjöri Donalds Trumps í Bandaríkjunum og úrslitum í þjóðaratkvæðagreiðslunni í Bretlandi um útgöngu úr Evrópusambandinu. Trump heimtaði tollvernd, en breskir íhaldsmenn styddu frjáls alþjóðaviðskipti. Rækilega var sagt frá ráðstefnunni í Morgunblaðinu, en þátttaka Hannesar í henni var liður í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna.

Glærur Hannesar í Reykjavík 19. apríl 2017