Hannes: Öflun tekna mikilvægari en dreifing þeirra

Hannes flytur erindi sitt í Rio de Janeiro.

Prófessor Hannes H. Gissurarson, forstöðumaður rannsókna RNH, flutti þrjá fyrirlestra á svæðisráðstefnum Estudantes pela liberdade, Samtökum frjálslyndra háskólastúdenta í Brasilíu, í apríl, 16. apríl í Rio de Janeiro, 23. apríl í Belo Horizonte og 30. apríl í háskólaborginni Santa Maria í fylkinu Rio Grande do Sul. Talaði hann í öll þrjú skiptin um umdeildar kenningar franska hagfræðingsins Tómasar Pikettys, sem krefst þungra skatta á hátekjufólk og stóreignamenn til að jafna tekjudreifingu. Hannes benti á, að Piketty hefði áhyggjur af því, að fólk yrði ríkt, en áður fyrr hefðu heimspekingar eins og John Rawls haft áhyggjur af því, að fólk væri fátækt. Flestir teldu fátækt böl, en velmegun ekki. Hnattvæðingin eða útfærsla alþjóðaviðskipta hefði haft þær tvær afleiðingar, að fámennur hópur fólks með einstæða hæfileika (hin frægu 1% Pikettys) gæti selt þá á miklu stærri markaði en áður og að hundruð milljóna manna hefðu brotist í bjargálnir í Indlandi og Kína. Því hefði tekjudreifingin sennilega orðið ójafnari á Vesturlöndum síðustu áratugi, en jafnari í heiminum sem heild. Hannes spurði líka, hvað væri að ójafnri tekjudreifingu, væri hún niðurstaðan úr frjálsu vali einstaklinganna. Ef Milton Friedman kemur til Íslands og selur inn á fyrirlestur, 10 þúsund krónur á mann, og 500 manns sækja fyrirlesturinn, þá verður tekjudreifingin ójafnari: Friedman er 5 milljón krónum ríkari og 500 einstaklingar 10 þúsund krónum fátækari. En allir eru ánægðir. Hvar er ranglætið?

Estudantes pela liberdade eru orðin mjög öflug samtök í brasilískum háskólum og hafa verið í fararbroddi í baráttu gegn landlægri spillingu. Fyrirlestrar Hannesar voru liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Glærur HHG í Rio de Janeiro 16. apríl 2016