Hannes: Sex ráð til að rjúfa þögnina

Evrópuvettvangur um minningu og samvisku hélt ársfund sinn í Bled í Slóveníu 15. nóvember 2018, og sótti dr. Hannes H. Gissurarson prófessor hann fyrir hönd RNH. Á undan ársfundinum fór alþjóðleg ráðstefna í Ljubljana 13.–14. nóvember undir heitinu „Skuggahlið tunglsins“, og var hún um minningar þeirra þjóða Mið- og Austur-Evrópu, sem lentu undir stjórn kommúnista eftir seinni heimsstyrjöld og endurheimtu ekki frelsi sitt fyrr en árin 1989–1991. Á ráðstefnunni í Ljubljana flutti Hannes erindi um raddir fórnarlambanna. Lagði hann út af orðum Elies Wiesels, að böðullinn dræpi alltaf tvisvar, í seinna skiptið með þögninni. Hannes benti á, að kommúnisminn væri ekki fordæmdur eins skilyrðislaust og nasisminn, þótt til þess væri full ástæða: hungursneyðir af mannavöldum, fjöldamorð, nauðungarflutningar þjóðflokka, rekstur þrælabúða, ógnarstjórn og eymd.

Hannes reifaði sex ráð til að rjúfa þögnina, lýsa upp skuggahlið tunglsins. Háskólar, sérstaklega félags- og hugvísindadeildir, hefðu verið herteknir af vinstri mönnum. Þess vegna þyrfti að búa frjálslyndum fræðimönnum athvarf og aðstöðu í sjálfstæðum stofnunum. Í annan stað yrði að tryggja, að nemendur í skólum fengju fræðslu um ódæði allra alræðissinna, ekki síður kommúnista en nasista. Ekki mætti til dæmis þegja um það, að Stalín hefði verið bandamaður Hitlers fyrstu tvö styrjaldarárin. Í þriðja lagi þyrfti að reisa minnismerki og reka söfn eins og hið merkilega safn í Varsjá um uppreisnina 1944. Í fjórða lagi ætti að ógilda alla þá opinberu viðurkenningu, sem valdsmenn úr röðum kommúnista hefðu víða hlotið. Myndastyttur af Bería væru jafnóeðlilegar og af Himmler, svo að ekki væri minnst á götunöfn og heiðursmerki. Í fimmta lagi þyrfti að halda reglulega ráðstefnur til að kynna forvitnilegar rannsóknir. Til dæmis hefði prófessor Frank Dikötter varpað ljósi á ógnarstjórn Maós í Kína í þremur stórfróðlegum bókum, og Svartbók kommúnismans hefði markað tímamót árið 1997.

Í sjötta lagi þyrfti að gera vönduð rit um alræðisstefnuna aðgengileg að nýju, jafnt á prenti og á Netinu, eins og Almenna bókafélagið á Íslandi beitti sér fyrir með Safni til sögu kommúnismans, en þegar hafa tíu rit verið endurprentuð í þeirri ritröð, þar á meðal Greinar um kommúnisma eftir Bertrand Russell, Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum eftir Ants Oras og Ég kaus frelsið eftir Víktor Kravtsjenko. Hannes kvað þrjú slík rit koma út í vetur, Framtíð smáþjóðanna: Erindi á Íslandi og öðrum Norðurlöndum 1946–1948 eftir norska skáldið Arnulf Øverland, Guðinn sem brást eftir sex rithöfunda, þar á meðal Arthur Koestler, André Gide og Ignazio Silone, og Til varnar vestrænni menningu: Ræður sjö rithöfunda 1950–1958, en höfundar eru Tómas Guðmundsson, Gunnar Gunnarsson, Kristmann Guðmundsson, séra Sigurður Pálsson í Hraungerði, Guðmundur G. Hagalín, séra Sigurður Einarsson í Holti og Davíð Stefánsson frá Fagraskógi.

Glærur Hannesar í Ljubljana

Ráðstefnan í Ljubljana var haldin í þinghúsinu. Forseti Slóveníu, Borut Pahor, og forseti Slóveníuþings, Alojz Kovšca, fluttu þar ávörp, en meðal ráðstefnugesta voru Janez Janša, fyrrverandi forsætisráðherra Slóveníu, og sendiherrar Úkraínu og Póllands í Slóveníu. Á ársfundinum í Bled var prófessor Łukasz Kamiński frá Póllandi endurkjörinn forseti Evrópuvettvangsins, en með honum sitja í stjórn dr. Andreja Valič Zver frá Slóveníu, dr. Wolfgang-Christian Fuchs frá Þýskalandi, dr. Toomas Hiio frá Eistlandi og Zsolt Szilágyi frá Rúmeníu. Samþykkt var á fundinum að veita fimm samtökum aðild að vettvangnum, en í honum voru fyrir 57 samtök og stofnanir í 20 löndum. Peter Rendek var ráðinn framkvæmdastjóri í stað dr. Neelu Winkelmanns. Borgarstjórinn í Bled, Janez Fajfar, hélt kvöldverð fyrir ársfundargesti miðvikudagskvöldið 14. nóvember. Evrópuvettvangur um minningu og samvisku var stofnaður í Prag haustið 2011 að áeggjan Evrópuþingsins, sem samþykkt hafði ályktun um, að minnast yrði fórnarlamba alræðisstefnunnar í Evrópu, kommúnisma og nasisma. Þátttaka Hannesar í ráðstefnunni og ársfundinum var liður í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“.