Hannes: Viðskipti árangursríkari en bönn

Besta ráðið gegn umhverfisspjöllum felst í frjálsum viðskiptum og skilgreiningu eignarréttar á náttúruauðlindum, ekki í bönnum eins og til dæmis við notkun DDT eða hvalveiðum eða verslun með fílabein, sagði dr. Hannes H. Gissurarson prófessor í fyrirlestri 21. ágúst á málstofu um umhverfisvernd í Sumarháskólanum í stjórnmálafræði í Aix-en-Provence. Hannes kvað alþjóðlegt bann við notkun DDT gegn mýflugum þeim, sem bera mýraköldu (malaríu) til manna, hafa haft í för með sér dauða milljóna manna úr þessum skæða hitabeldissjúkdómi. Þótt DDT hefði vissulega verið ofnotað í landbúnaði áður fyrr, væri það hættulaust mönnum.

Alþjóðlegt bann við hvalveiðum væri í raun fráleitt. Hvalastofnarnir, sem Íslendingar nýttu, hrefna og langreyður, væru sterkir. Hvalir á Íslandsmiðum ætu á að giska sex milljónir lesta af sjávarmeti, þar á meðal smáfiski, en sjálfir lönduðu Íslendingar á aðra milljón lesta af fiski. Hvalfriðunarsinnar virtust ætlast til þess, að Íslendingar fóðruðu hvali fyrir þá án þess að fá að nýta þá. Þeir væru eins og ágengur bóndi, sem ræki kvikfénað sinn á bithaga nágrannanna, en vildi ekki leyfa þeim neinar nytjar af honum.

Alþjóðlegt bann við verslun með fílabein næði ekki heldur tilgangi sínum. Vissulega væru sumir fílastofnar í Afríku í útrýmingarhættu, en það væri vegna þess, að veiðiþjófar ásældust fílabeinið, sem væri víða eftirsótt. Hyggilegast væri að skilgreina eignarrétt á fílum, sem gæti iðulega verið í höndum byggðanna næst dvalarsvæðum þeirra. Þá myndu veiðiþjófar breytast í veiðiverði með einu pennastriki. Umhverfisvernd krefðist verndara, eigenda. Hið gamla lögmál væri enn í fullu gildi: Það, sem allir eiga, hirðir enginn um. Hannes kvað kvótakerfið í íslenskum sjávarútvegi vera dæmi um gott ráð gegn ofnýtingu náttúruauðlindar. Hann rakti ýmis önnur dæmi um umhverfisspjöll og umhverfisvernd úr bók sinni, Green Capitalism.

Glærur HHG Aix 21.08.2019

Auk Hannesar talaði prófessor Jean-Pierre Chamoux á málstofunni um umhverfisvernd. Varð honum tíðrætt um, að frelsinu fylgdi ábyrgð. Menn stunduðu umhverfisspjöll, af því að þeir væri ábyrgðarlausir, spjöllin kostuðu þá sjálfa ekkert, og þyrfti að breyta því, meðal annars með skilgreiningu einkaeignarréttar á gæðum. Þátttaka Hannesar í Sumarháskólanum var liður í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Blágrænan kapítalisma“. Í lokahófi Sumarháskólans hitti Hannes tvo fyrrverandi formenn Hayek Society í Oxford, en hann átti þátt í því að stofna það árið 1984, Martin Cox, sem er nú forstöðumaður John Locke Institute, og Sunny Chen, sem stundar enn nám í Oxford. Hayek Society fær málsmetandi fyrirlesara til Oxford á hverju námsmisseri, og rökræða þeir um vanda þess og vegsemd að vera frjáls.