Hayek og Menger í Vínarborg

Sumar hugmyndir Friedrichs von Hayeks, eins áhrifamesta stjórnmálahugsuðar tuttugustu aldar, má rekja til landa hans, austurríska hagfræðingsins Carls Mengers, sagði dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, rannsóknastjóri RNH, á ráðstefnu um austurrísku hagfræðihefðina í Vínarborg 13.–14. nóvember 2019. Þar ber hæst þá hugmynd Mengers, að eitt helsta verkefni félagsvísindanna ætti að vera að skýra, hvers vegna sum nytsamleg fyrirbæri væru sjálfsprottin, en ekki ætlunarverk. Nefndi Menger í því sambandi tungumálið, peninga, frjálsan markað og venjurétt. Menger hefði gagnrýnt breska nytjastefnu fyrir skilningsleysi á slíkum sjálfsprottnum fyrirbærum, en líka þýska sögustefnu fyrir gagnrýnisleysi á slík fyrirbæri. Hayek hefði tekið þessa hugmynd Mengers upp. Þeir teldu báðir og raunar Karl Popper líka, að sósíalismi væri frekar fræðileg yfirsjón en sérstök stjórnmálastefna, og væri yfirsjónin fólgin í að telja félagsleg fyrirbæri ætlunarverk og þess vegna hæglega fær um að vera endursköpuð. Sósíalistar sæju jafnan mannlegan vilja á bak við félagsleg fyrirbæri, góð og slæm. Þjóðernissósíalistar hefðu til dæmis kennt gyðingum um allt, sem miður hefði farið, en aðrir sósíalistar sett í þeirra stað auðvaldið. Nú á dögum töluðu sumir um tekjudreifingu í frjálsu hagkerfi eins og athöfn eða ætlunarverk, sem breyta mætti að vild, en hún væri í raun og veru niðurstaða úr frjálsu vali óteljandi einstaklinga.

Þeir Menger og Hayek hefðu líka lagt áherslu á takmarkanir einstaklingsbundinnar skynsemi í heimi sífelldrar þróunar og óvissu, en í framhaldi af því hefði Hayek varpað fram hinni mikilvægu spurningu, hvað skýrði þá hinar stórkostlegu framfarir á Vesturlöndum. Svar hans hefði verið, að í frjálsu skipulagi nýttu einstaklingar sér miklu meiri þekkingu en þeir byggju sjálfir yfir, meðal annars fyrir tilstilli venju og verðlagningar. Þeir Menger og Hayek hefðu því verið íhaldssamir frjálshyggjumenn, sagði Hannes: íhaldssamir í virðingu sinni fyrir hefðum og venjum, frjálslyndir með stuðningi sínum við frjálst hagkerfi, óhefta samkeppni og eðlilega verðmyndun á markaði.

Fyrirlestur Hannesar er aðgengilegur á Youtube. Ráðstefnan fór fram í húsakynnum austurríska seðlabankans, en Austurríska hagfræðisetrið undir forystu dr. Barböru Kolm skipulagði hana. Meðal annarra fyrirlesara voru prófessor Erich Weede frá Þýskalandi, prófessor Robert Murphy og dr. Veronique de Rugy frá Bandaríkjunum og Anders Ydstedt frá Svíþjóð. Í erindi sínu velti Weede fyrir sér, hvernig þróunin yrði á næstunni, eftir að Kína væri orðið öflugasta hagkerfi í heimi. Hætta gæti myndast á ófriði, eins og eftir að Þýskaland náði eftir 1870 yfirburðum á meginlandi Evrópu. Þessa hættu mætti minnka með varnarviðbúnaði vestrænna þjóða annars vegar, friði í krafti ótta, og frjálsum viðskiptum hins vegar, friði í krafti gagnkvæms hags. Bandaríkjamennirnir Tom Woods rithöfundur og Richard Stephenson athafnamaður voru á ráðstefnunni sæmdir Hayek-verðlaununum fyrir framtak sitt og frelsisbaráttu. Þátttaka Hannesar í ráðstefnunni var liður í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Blágrænan kapítalisma“.

Glærur Hannesar í Vínarborg 13. nóvember 2019