Dr. Nils Karlson, forstöðumaður Ratio-stofnunarinnar í Stokkhólmi, flutti fyrirlestur um nýju sænsku leiðina á fjölsóttum fundi RNH og Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands mánudaginn 14. janúar 2013. Alyson Bailes, stjórnarformaður Alþjóðamálastofnunar og kennari í alþjóðastjórnmálum, var fundarstjóri. Karlson sagði, að í raun mætti tala um þrjár sænskar leiðir. Hin fyrsta hefði verið farin 1870–1970, þegar atvinnufrelsi hefði verið víðtækt í Svíþjóð og skattar lágir. Til dæmis hefðu skattar verið lægri en í Bandaríkjunum fram undir 1960. Önnur sænska leiðin hefði verið mörkuð undir stjórn jafnaðarmanna frá 1970 til 1990. Þá hefðu ríkisafskipti aukist, skattar verið hækkaðir og tekjum endurdreift í miklum mæli. Svíar hefðu lent í ógöngum og fetað sig um og eftir 1995 inn á það, sem kalla mætti nýju sænsku leiðina. Skattar hefðu lækkað úr yfir 52% af vergri landsframleiðslu árið 1990, sem hefði verið hæsta hlutfall í hinum vestræna heimi, í um 43%. Rýmkað hefði verið um margvíslegar reglur á einstökum mörkuðum, ríkisfyrirtæki verið seld og einkaaðilum einnig gert kleift að veita ýmsa þjónustu, þótt ríkið greiddi fyrir hana. Almenn sátt væri í Svíþjóð um þessa nýju leið.
Fjörugar umræður urðu eftir erindi Karlsons, og tóku margir til máls, þar á meðal Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins, Stefán Ólafsson prófessor, Lilja Mósesdóttir alþingismaður og Jóhann J. Ólafsson forstjóri. Á meðal áheyrenda var sendiherra Svíþjóðar á Íslandi, Anders Ljunggren, sem var aðstoðarráðherra í fjármálaráðuneytinu fyrir Miðflokkinn 1995–1998 og vann þá með jafnaðarmönnum að þeim umbótum, sem Karlson lýsti. Viðskiptablaðið birti viðtal við Karlson í netsjónvarpi sínu 14. janúar, og Morgunblaðið birti viðtal við Karlson 15. janúar. Einnig hafa Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, og Stefán Ólafsson prófessor bloggað um fyrirlesturinn og túlka hann ólíkt. Hér eru glærur frá fyrirlestri Karlsons: