Jónas Sigurgeirsson um Norður-Kóreu

Jónas með Norður-Kóreu í baksýn.

Norður-Kórea er eitt furðulegasta land í heimi, en ástæðulaust er að hafa það í flimtingum, því að kúgunin þar er hrottaleg, sagði Jónas Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri Almenna bókafélagsins og RNH, í viðtali á Morgunvaktinni á Ríkisútvarpinu 15. ágúst. Tilefni viðtalsins var útkoma íslenskrar þýðingar á bók eftir unga stúlku frá Norður-Kóreu, Yeonmi Park, Með lífið að veði, en hún hefur komið út í mörgum löndum og selst mjög vel. Höfundurinn, sem er aðeins 24 ára, lýsir uppvexti sínum í landinu, en hungursneyð geisaði þar árin 1994–1998. Faðir hennar var handtekinn fyrir „brask“, en Yeonmi og móðir hennar ákváðu að flýja til Kína. Þar lentu þær hins vegar í klónum á mansalshring, og var mæðgunum nauðgað og þær seldar í hjónabönd. Eftir miklar raunir tókst þeim að flýja til Mongólíu og komast þaðan til Suður-Kóreu. Stundar Park nú nám við Columbia-háskóla í New York og er nýgift.

Jónas lýsti líka í útvarpsviðtalinu ferð sinni vorið 2017 til Suður-Kóreu á ráðstefnu Mont Pèlerin-samtakanna, alþjóðasamtaka frjálslyndra fræðimanna, en þá skreið hann einn daginn ásamt öðrum ráðstefnugestum um jarðgöng til Norður-Kóreu, en Norður-Kóreumenn höfðu grafið þau til að geta laumað njósnurum og undirróðursmönnum inn til Suður-Kóreu. Munurinn á lífskjörum í Norður- og Suður-Kóreu er ótrúlegur. Útgáfa bókar Parks er þáttur í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna: Minninguna um kommúnismann“.