Kapítalisminn enn sprelllifandi

Frá v.: Yaron Brook, Aynd Rand-stofnuninni, Bruno Zaffari fundarstjóri, Eduardo Campos, fylkisstjóri í Pernambuco, og Hannes H. Gissurarson, Háskóla Íslands.

Frá v.: Yaron Brook, Aynd Rand-stofnuninni, Bruno Zaffari fundarstjóri, Eduardo Campos, fylkisstjóri í Pernambuco, og Hannes H. Gissurarson, Háskóla Íslands.

Prófessor Hannes H. Gissurarson, stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands og RNH, hélt erindi á ráðstefnunni Fórum da liberdade í Porto Alegre í Brasilíu 9. apríl 2013. Nefndist það „Gerum ósýnilegu höndina sýnilega: Hugleiðingar um stjórnmálahagfræði og frelsi“. Þar kvað Hannes mestu frétt 21. aldar vera, að fjögur risaríki, Brasilía, Rússland, Indland og Kína (BRIK-löndin), hefðu gengist undir kapítalismann. Hagvöxtur væri þar ör, og yrðu aðrar þjóðir að hafa sig allar við. Hannes bar saman lífskjör á Norðurlöndum og í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna og fylkjum Kanada og lífskjör Svía í Svíþjóð og fólks af sænskum ættum í Bandaríkjunum, og var niðurstaða hans, að lífskjör væru almennt því betri sem kapítalisminn væri öflugri. Hann kvað tilgang skattheimtu ekki að eiga vera þá að hámarka skatttekjur ríkisins, heldur að örva hagvöxt, og það yrði best gert með hóflegri skattheimtu, svipað og í Sviss. Brasilíumenn yrðu að forðast að festast í sömu gildru óraunhæfra loforða og lýðskrums og Argentínumenn, og sýndi hann línurit af þróun Argentínu og Ástralíu frá því 1929, þegar íbúar þessara tveggja landa nutu einhverra bestu lífskjara í heimi. Síðan hefur Argentína staðnað, því að þar er aðallega keppt að því að endurdreifa auðnum, en Ástralíu miðað fram, því að þar er aðallega keppt að því að skapa auðinn.

Hér er viðtal við Hannes Hólmstein, áður en hann hélt erindið:

Á málstofunni með Hannesi voru einnig Eduardo Campos, fylkisstjóri í Pernambuco og hugsanlegur frambjóðandi Sósíalistaflokks Brasilíu í komandi forsetakjöri, og dr. Yaron Brook, forstöðumaður Ayn Rand-stofnunarinnar í Kaliforníu. Á meðal annarra fyrirlesara á ráðstefnunni voru José Mariano Beltrame, yfirmaður öryggismála í Rio de Janeiro, Randy T. Simmons, prófessor í Utah State University og höfundur fjölmargra bóka um hagfræði, Paulo Kakinoff, forstjóri brasilíska flugfélagsins GOL, Jorge Gerdau, einn umsvifamesti kaupsýslumaður Brasilíu, og Alexandre Tombini, seðlabankastjóri Brasilíu. Einnig tók einn af eigendum Globo-fjölmiðlasamsteypunnar, João Roberto Marinho, við verðlaunum fyrir að hafa staðið dyggan vörð um prentfrelsi í Brasilíu.

Samtök ungra framkvæmdamanna og frumkvöðla í fylkinu Rio Grande do Sul, IEE (Instituto Estudos empresariais), héldu ráðstefnuna, og sóttu hana um fjögur þúsund manns, þegar mest var, en hún stóð í tvo daga. Ráðstefnan var helguð hugmynd franska rithöfundarins Frédérics Bastiats um muninn á því, sem er sýnilegt, og hinu, sem er ósýnilegt, í atvinnulífinu. Hér er erindi Hannesar Hólmsteins:

Fundinum með honum og þeim Campos og Brook er meðal annars lýst á bloggsíðunum og í veftímaritunum ZH, Voto og Agenda 2020. Fyrirlestur Hannesar var þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“. Hann notaði tækifærið á ráðstefnunni til að tala við þrjá gesti um að halda fyrirlestra á Íslandi, þá dr. Yaron Brook um hugmyndir Ayns Rands í bókinni Kíru Argúnovu (We the Living), sem væntanleg er á íslensku haustið 2013, prófessor Randy Simmons um almannavalsfræði og prófessor João Carlos Espada um hina engilsaxnesku frelsishefð.

Glærur Hannesar 9. apríl 2013