Lundúnir: Rætt um fyrirkomulag fiskveiða

Rannsóknastjóri RNH, dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, var framsögumaður á lokuðum hádegisverðarfundi Adam Smith stofnunarinnar í Lundúnum mánudaginn 28. nóvember 2016 um heppilegasta fyrirkomulag fiskveiða, en nú þurfa Bretar að marka eigin fiskveiðistefnu eftir útgönguna úr ESB. Á meðal annarra gesta voru breskir þingmenn og fyrrverandi ráðherrar og tveir Íslendingar, Þórður Ægir Óskarsson sendiherra og Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, stjórnarformaður Ísfélagsins í Vestmannaeyjum. Hannes fór yfir nokkur helstu atriðin í bók sinni, The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable, sem kom út hjá Háskólaútgáfunni í árslok 2015 og er auk þess aðgengileg á Netinu. Einnig rakti hann nýlegar umræður á Íslandi um uppboðsleiðina, en RNH hélt ásamt hagfræðideild Háskóla Íslands og öðrum aðilum ráðstefnuum hana 29. ágúst, þar sem heimskunnir sérfræðingar töluðu, prófessorarnir Gary Libecap og Ragnar Árnason.

Að kvöldi mánudagsins sat Hannes ásamt nokkrum öðrum gestum kvöldverð í lávarðadeild breska þingsins, sem dr. Matt Ridley, fjórði vísigreifi Ridley og höfundur metsölubóka um erfðavísindi og þróun, bauð til. Almenna bókafélagið gaf út bók Ridleys, Heimur batnandi fer, árið 2014. Ridley hefur oft komið til Íslands, ýmist til að veiða lax eða halda fyrirlestra. Á þriðjudaginn hitti Hannes að máli sjávarútvegsráðherra Breta, George Eustice, og nokkra embættismenn og ræddi við þá um reynslu Íslendinga af kvótakerfinu. Kvað hann helstu vandræðin af kerfinu hvorki vera hagfræðileg né tæknileg, heldur þau, að menn utan greinarinnar sæju ofsjónum yfir þeim arði, sem þar myndaðist. Til þess að ná hámarkshagkvæmni yrðu kvótarnir að vera að fullu seljanlegir og varanlegir. Þá tækju handhafar kvótanna að stefna að hámarksarðsemi þeirra til langs tíma.

Á Snjáldru (Facebook) sagði Hannes um fund sinn með ráðherranum: „Við eyddum ekki öllum tímanum í alvöru lífsins, heldur tókum líka upp léttara hjal. Ég sagði honum, að fyrsta enska fiskiskipið hefði birst fyrir Íslandsströndum 1412, að Danakóngar hefðu þrisvar reynt að selja Hinrik VIII. Ísland, árangurslaust, að Sir Joseph Banks hefði bjargað þjóðinni frá hungursneyð á öndverðri 19. öld og að Winston Churchill hefði fyrst gefið V-merkið, sigurmerkið, opinberlega á Íslandi (á siglingu út úr Reykjavíkurhöfn sumarið 1941). Ég dró ekki dul á, að ég teldi Ísland, þetta litla ríki, eiga samleið með Bretum, þótt stórt væri og voldugt, enda væru bæði löndin niður komin á Norður-Atlantshafi.“