Málstofa um Frédéric Bastiat

Hagfræðirannsóknastofnun Bandaríkjanna, American Institute of Economic Research, hélt málstofu í Hlíðarsmára 19 í Kópavogi laugardaginn 7. september kl. 17–19. Þar töluðu prófessor Edward Stringham og einn sérfræðingur stofnunarinnar, Brad DeVos, um AIER og um franska rithöfundinn Frédéric Bastiat, sem uppi var á nítjándu öld, en hann er einn orðsnjallasti talsmaður viðskiptafrelsis fyrr og síðar, eins og sést á tveimur frægustu ritgerðum hans, Um hið sýnilega og ósýnilega og Bænarskrá kertasteypara. Í fyrri ritgerðinni bendir Bastiat á hinar ósýnilegu afleiðingar viðskiptafrelsis og viðskiptatálmana, en í hinni seinni lætur hann kertasteypara krefjast verndar frá samkeppni við framleiðanda annars ljósgjafa, sólarinnar. Á fundinum var Bastiat-félagið á Íslandi stofnað, en það er eitt margra um allan heim, og er Magnús Örn Gunnarsson forsvarsmaður þess.

 

Bastiat.

 

Í umræðum á eftir framsöguerindum þeirra Stringhams og DeVos benti prófessor Hannes H. Gissurarson á, að fyrsta íslenska hagfræðiritið, Auðfræði eftir Arnljót Ólafsson, sem kom út 1880, hefði verið samið undir sterkum áhrifum frá Bastiat. Einnig hefði Bastiat átt marga lærisveina á Norðurlöndum á nítjándu öld, þar á meðal sænska ráðherrann Johan August Gripenstedt, sem hefði með umbótum sínum 1856–1866 skapað forsendur fyrir velmegun Svía á tuttugustu öld. Á íslensku hefur eitt rit Bastiats komið út, Lögin, og hyggst RNH beita sér fyrir endurútgáfu þeirrar bókar. Einnig er hið aðgengilega yfirlitsrit Henrys Hazlitts, Hagfræði í hnotskurn, skrifað í anda Bastiats.

Þeir Stringham og DeVos voru staddir á Íslandi í tengslum við ráðstefnu íslenskra frjálshyggjustúdenta daginn áður. Stuðningur RNH við Bastiat-félagið er liður í samstarfsverkefni við Evrópusamtök íhaldsmanna og umbótasinna, ACRE,Alliance of Conservatives and Reformists in Europe, um blágrænan kapítalisma.