Minningar um fjóra meistara

Dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði, flutti erindi fyrir Skólabæjarhópinn svokallaða, sem er félag fyrrverandi starfsmanna Háskóla Íslands, í safnaðarheimili Neskirkju miðvikudaginn 13. febrúar 2013. Kallaði hann erindið „Minningar um fjóra meistara“. Þar sagði hann frá kynnum sínum af þeim Friedrich A. von HayekKarli PopperMilton Friedman og James M. Buchanan. Þrír þeirra, Nóbelsverðlaunahafarnir Hayek, Friedman og Buchanan, komu á sínum tíma til Íslands og héldu fyrirlestra, en Hannes Hólmsteinn heimsótti Popper á heimili hans í Penn, Buckinghamshire, í janúar 1985 og ræddi lengi dags við hann um menn og málefni. Allir voru þessir hugsuðir mjög áhrifamiklir á tuttugustu öld. Óhætt er að segja, að hagfræðingar og stjórnmálamenn hafi á tuttugustu öld ýmist hallast á sveif með Hayek eða John Maynard Keynes um skilning á hagkerfinu og gangverki þess. Heimspekingar hafa á sama hátt skipað sér ýmist á bekk með Popper eða öðrum austurrískum heimspekingi, Ludwig Wittgenstein, sem var raunar frændi von Hayeks.

Hannes Hólmsteinn og Hayek í Lundúnum vorið 1985.

 Eftir að Félag frjálshyggjumanna hafði verið stofnað á áttræðisafmæli Hayeks 8. maí 1979, þáði Hayek boð um að koma til Íslands. Hann hélt hér tvo fyrirlestra, annan um skipulag peningamála í Háskóla Íslands, hinn um „Miðju-moðið“ á fundi Félags frjálshyggjumanna. Hann bauð einnig Hannesi Hólmsteini að sækja þing Mont Pelerin Society í Stanford haustið 1980, og árið 1984 var Hannes Hólmsteinn kjörinn félagi í samtökunum. Sótti hann meðal annars samkvæmi, sem Richard von Weizsäcker, þá borgarstjóri í Berlín og síðar forseti Þýskalands, hélt til heiðurs Hayek í Charlottenburg-höll 1982 og annað samkvæmi, sem Jacques Chirac, þá borgarstjóri í París og síðar forseti Frakklands, hélt til heiðurs Hayek í Hotel de Ville 1984. Sýndi Hannes Hólmsteinn myndir frá þessum og mörgum öðrum viðburðum. Í Oxford skrifaði Hannes Hólmsteinn doktorsritgerð um kenningu Hayeks, og hann og nokkrir félagar hans stofnuðu þar Hayek Society. Í erindi sínu sagði Hannes Hólmsteinn frá eftirminnilegum kvöldverði með Hayek í Lundúnum vorið 1985, þar sem hinn aldni Austurríkismaður lék á als oddi, 86 ára að aldri, tók undir með hljómlistarmönnum, þegar lagið „Borg drauma minna“ (um Vín) var leikið, sagði frá því, hvernig Margrét Thatcher hefði afvopnað sig í rökræðum, ræddi um muninn á frelsi og frelsun, gagnrýndi aðferðafræði Chicago-skólans í hagfræði, bar saman John F. Kennedy og Ronald Reagan, sem hann hafði báða hitt, og tók loforð af ungu mönnunum um, í hvaða anda þeir myndu stunda rannsóknir sínar.

Milton og Rose Friedman og Hannes Hólmsteinn í Tókíó haustið 1988.

Hannes Hólmsteinn kvaðst fyrst hafa hitt Milton Friedman á þingi Mont Pelerin Society í Stanford 1980. Hann hefði sagt Friedman, að hann stæði í ströngu við að verja hann á Íslandi. Friedman hefði sagt: „Þú átt ekki að verja mig. Þú átt að verja sameiginlega sannfæringu okkar.“ Friedman hefði kunnað vel að meta, þegar Hannes Hólmsteinn hefði 1984 skrifað tölfræðiprófessor einum í Oxford, sem vitnað hefði verið til um skekkjur og brellur í tölfræðivinnslu í verkum Friedmans, og fengið hjá honum staðfestingu á því, að ekki væri um neinar skekkjur eða brellur að ræða, heldur aðeins ólíkar úrvinnsluaðferðir. Friedman hefði heimsótt Ísland haustið 1984 til að halda fyrirlestur, en komið fram í frægum sjónvarpsþætti kvöldið fyrir fyrirlesturinn með Stefáni Ólafssyni og Ólafi Ragnari Grímssyni. Þegar Stefán hefði gagnrýnt, að krafist væri aðgangseyris að fyrirlestri Friedmans, en opinberir fyrirlestrar erlendra fræðimanna hefðu fram að þessu verið ókeypis í Háskóla Íslands, hefði Friedman svarað því til, að slíkir fyrirlestrar hefðu auðvitað ekki verið ókeypis. Munurinn hefði verið sá, að þeir, sem ekki sóttu þá, hefðu orðið að greiða fyrir þá, en ekki aðeins áheyrendurnir. Hannes Hólmsteinn sagði frá hádegisverði, sem Matthías Á. Mathiesen viðskiptaráðherra hefði boðið til. Friedman hefði sem kunnugt er viljað leggja niður seðlabanka. Hannes Hólmsteinn hefði kynnt Davíð Ólafsson seðlabankastjóra fyrir Friedman með þessum orðum: „Hér er maður, prófessor Friedman, sem yrði atvinnulaus, væru þínar kenningar framkvæmdar á Íslandi.“ Friedman hefði þá sagt með bros á vör: „Ekki atvinnulaus: Hann yrði aðeins að færa sig í arðbærara starf.“

Hannes Hólmsteinn sagði í erindi sínu margar fleiri sögur af þeim Hayek og Friedman, en einnig af Karli Popper og James M. Buchanan. Þeir Poppper hefðu til dæmis talað lengi um, hvort Popper hefði verið of vægur við Karl Marx í hinu mikla riti sínu, Opnu skipulagi og óvinum þess (The Open Society and Its Enemies). Popper sagðist hafa orðið fyrir miklum áhrifum af lýsingum bresku skáldkonunnar Elísabetar Gaskells á eymdinni meðal vinnandi fólks á Bretlandseyjum á nítjándu öld. Popper hefði einnig bent á, að Ísland væri eina dæmið um raunverulegt þjóðríki — þar sem þjóð og ríki fara saman — sem hann þekkti. Fyrirlestur Hannesar Hólmsteins var þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, undir yfirskriftinni „Evrópa, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Glærur Hannesar 13.2.2013