Smæðin tækifæri ekki síður en takmörkun

Hannes flytur fyrirlestur sinn í Öström. Ljósm. Heinesen-myndir

Hannes flytur fyrirlestur sinn í Öström. Ljósm. Heinesen-myndir

Smæð þjóða getur verið tækifæri ekki síður en takmörkun, sagði dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, forstöðumaður rannsókna RNH, á fundi stjórnmálafélagsins Framsóknar í Færeyjum í samkomuhúsinu Öström í Þórshöfn laugardaginn 22. mars 2014. Í erindi sínu rakti Hannes í örstuttu máli sögu Íslendinga, sem hefðu öldum saman setið fastir í gildru Malthusar. Þá hefði fólksfjöldi ekki komist yfir fimmtíu þúsund manns, af því að nokkrir stórbændur hefðu í samstarfi við Danakonung haldið niðri sjávarútvegi, sem einn hefði verið sæmilega arðbær. Lífskjör á Íslandi hefðu verið helmingur á við það, sem gerðist í Danmörku, allt til 1940. Frá þeim tíma og fram á síðasta áratug 20. aldar hefðu Íslendingar haldið uppi betri lífskjörum en efni stóðu til með aðstoð Bandaríkjanna í heitu stríði og köldu, fjórum útfærslum fiskveiðilögsögunnar og rányrkju, sem hefði leitt til hruns síldarstofnsins og næstum því til hruns þorskstofnsins. Tímamót hefðu hins vegar orðið 1991, þegar Íslendingar hefðu opnað hagkerfið og aukið atvinnufrelsi. Hætt hefði verið að ausa fé í óarðbær fyrirtæki, verðbólga hjaðnað, hallarekstri ríkissjóðs verið snúið í afgang, sem notaður hefði verið til að greiða skuldir hins opinbera, ríkisfyrirtæki verið seld, skattar lækkaðir, kvótakerfið í sjávarútvegi betrumbætt og lífeyrissjóðir efldir.

Önnur tímamót hefðu hins vegar orðið 2004, þegar fámenn auðklíka undir forystu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í Baugi hefði náð völdum á Íslandi. Þá hefði klíkukapítalismi leyst markaðskapítalisma af hólmi. Varpaði Hannes upp línuriti með tölum skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu, en það sýndi að sögn hans, að auðklíka Jóns Ásgeirs hefði fyrir hrun safnað miklu meiri skuldum en hinar viðskiptasamstæðurnar tvær, sem rannsóknarnefndin skilgreindi. Vegna krosseignatengsla og ofmetinna eigna hefði þannig myndast sérstök kerfislæg áhætta á Íslandi, sem hefði bæst við þá aðra kerfislægu áhættu, að rekstrarsvæði íslensku bankanna hefði verið miklu stærra en baktryggingarsvæði þeirra, eins og komið hefði á daginn haustið 2008. Þá hefðu ákvarðanir í New York og Lundúnum velt hinum óstöðuga íslenska fjármálamarkaði um koll. Bandaríkjamenn hefðu ekki gert gjaldeyrisskiptasamninga við Íslendinga eins og við aðrar Norðurlandaþjóðir, og Bretar hefðu ekki aðeins neitað að veita breskum bönkum í eigu Íslendinga aðild að fyrirgreiðslu, sem aðrir breskir bankar fengu, heldur hefðu þeir sett hryðjuverkalög á Landsbankann, Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið og með því gert að engu allar vonir um, að einhverjir íslenskir bankar gætu lifað áfram.

Bankahrunið haustið 2008 hefði valdið snöggri vinstrisveiflu á Íslandi, sem hefði síðan gengið til baka í kosningunum vorið 2013. En bankahrunið hefði sýnt Íslendingum, að erfitt gæti verið að standa uppi vinafáir. Þrátt fyrir skeytingarleysi Bandaríkjamanna og Breta um hag Íslendinga væru þeir ásamt Kanadamönnum eðlilegustu bandamenn Íslendinga. Einskis skjóls væri að leita í Evrópusambandinu eins og dæmi Kýpur hefði sýnt. Umfram allt yrðu smáþjóðir þó að treysta á sjálfar sig í hörðum heimi, nýta auðlindir sínar skynsamlega, halda skattheimtu í hófi og auðvelda verðmætasköpun. Fyrirlestur Hannesar var þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.