Þrjú íslensk dæmi um sjálfsprottna þróun

Frá v.: Jordan, Hannes og Poole.

Frá v.: Jordan, Hannes og Poole.

Ítalan í almenningum á þjóðveldisöld, kvótakerfið í sjávarútvegi og verðtryggð króna eru þrjú íslensk dæmi um lausnir í krafti markaðarins frekar en ríkisins, sagði dr. Hannes H. Gissurarson prófessor á ráðstefnu um kenningar Friedrichs von Hayeks í Manhattanville College í New York 10. október 2014, sem Economic Freedom Institute hélt. Hannes rifjaði upp kynni sín af Hayek, sem hefði lagt áherslu á, að menn yrðu ekki blindir lærisveinar sínir, heldur beittu gagnrýninni hugsun á viðfangsefni hvers tíma. Í þeim anda væri hann að rekja þessi þrjú dæmi. Ítalan í almenningum að fornu og kvótakerfið í sjávarútvegi væru hvort tveggja til að leysa „samnýtingarbölið“ (tragedy of the commons), þegar menn ofnýta auðlind, sem ókeypis aðgangur er að. Hannes kvaðst hafa lagt til á ráðstefnu á Þingvöllum haustið 1980 að úthluta kvótum til útgerðarmanna til að girða fyrir ofveiði, en hann hefði þá ekki vitað af því, að það hafði þá þegar verið gert í síldveiðum árið 1975 og í loðnuveiðum 1979. Kvótakerfi var síðan tekið upp í áföngum í bolfiskveiðum frá árinu 1984, og smám saman urðu kvótarnir framseljanlegir og ótímabundnir. Það væri gott dæmi um kerfi, sagði Hannes, sem ekki var hannað af fræðimönnum, heldur sprottið upp úr reynslu fólks úti í atvinnulífinu og síðan útskýrt af fræðimönnum.

Hannes kvaðst síðan hafa lagt til í blaðagreinum árið 1983 að leggja niður íslensku krónuna og taka upp traustari gjaldmiðil, því að krónan hefði ekki gegnt tveimur af þremur hlutverkum peninga vel, að vera mælir verðlags og geymir verðmæta. En hann hefði þá ekki gert sér fulla grein fyrir því, að þetta mál hefði í raun þá þegar verið leyst með verðtryggðri krónu, sem gegndi vel þessum tveimur hlutverkum, en venjuleg króna hefði hins vegar eftir sem áður dugað í þriðja hlutverkinu sem gjaldmiðill. Tvenns konar peningar hefðu verið — og væru enn — í umferð á Íslandi, verðtryggð króna í langtímasamningum og venjuleg króna í hversdagslegum viðskiptum. Hannes benti á, að í þessum þremur dæmum hefði vissulega orðið að setja lög til að auðvelda mönnum að stýra nýtingu á almenningum og fiskimiðum og að velja á milli þessara tvenns konar peninga, en þetta væru samt frekar markaðs- en ríkislausnir. Hannes notaði tækifærið í New York til að ræða við prófessor Frederic Mishkin um íslenska bankahrunið og við lögfræðinginn Walker F. Todd, sem er sérfræðingur í gjaldeyrisskiptasamningum. Hann ræddi einnig um hina alþjóðlegu fjármálakreppu, starfsemi bandaríska seðlabankans og íslenska bankahrunið við þá Jerry Jordan, fyrrv. bankastjóra Seðlabankans í Cleveland, og William Poole, fyrrv. bankastjóra Seðlabankans í St. Louis, en þeir sóttu báðir ráðstefnuna í Manhattanville College. Hana skipulögðu prófessor emeritus Anna Sachko Gandolfi og dr. Arthur E. Gandolfi, fyrrverandi aðstoðarforstjóri Citicorp og gamall nemandi Ayns Rands og Ludwigs von Mises í New York. Gandolfi-hjónin hafa ásamt David P. Barash gefið út bókina Hagfræði sem þróunargrein (Economics as an Evolutionary Science). Fyrirlestur Hannesar í New York var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Glærur Hannesar í Manhattanville College