Útlendingar höfðu hundrað milljarða af Íslendingum

HHG.Mbl_.14.03.2014

Útlendingar nýttu sér neyð Íslendinga í bankahruninu til þess að kaupa af þeim eignir á verði, sem var langt undir eðlilegu markaðsverði, jafnvel í kreppu. Þetta gátu þeir, því að opinberir aðilar í ýmsum Evrópulöndum neituðu íslenskum fyrirtækjum um þá fyrirgreiðslu, sem innlend fyrirtæki fengu. Þessu hélt dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði og forstöðumaður rannsókna RNH, fram í fyrirlestri, sem hann flutti á vorráðstefnu Viðskiptafræðistofnunar Háskóla Íslands 14. mars 2014. Hannes rifjaði upp kenningar heilags Tómasar af Akvínó um viðskiptasiðferði: Menn mættu reyna að fá sem hæst verð fyrir vöru sína (Summa Theologiæ, II, II, 77, 3), en þeir mættu ekki nýta sér neyð annarra til að setja þeim afarkosti (Summa Theologiæ, II, II, 66, 7). Undir þetta sjónarmið heilags Tómasar taka ýmsir frjálshyggjumenn, til dæmis Friedrich von Hayek og Robert Nozick, þótt sérhyggjumenn hafni því.

HHG.14.03.2013.lecture

Hannes rakti í fyrirlestri sínum þrjú dæmi, sölu Glitnir Bank ASA í Noregi, Glitnir Securities í Noregi og Glitnir Pankki Oy í Finnlandi. Norski seðlabankinn hafi neitað fyrirtækjum í eigu Íslendinga um alla fyrirgreiðslu, en Tryggingarsjóður innstæðueigenda veitt skyndilán, en stjórnarformaður Tryggingarsjóðsins síðan sett saman hóp kaupenda, sem hefði keypt Glitnir Bank á 300 milljónir norskra króna, en bankinn hafi þremur mánuðum síðar verið metinn á tvo milljarða norskra króna. Svipað var að segja um Glitnir Securities. Starfsmenn keyptu fyrirtækið á 50 milljónir norskra króna strax eftir bankahrunið, en seldu viku síðar helmingshlut í fyrirtækinu á 50 milljónir. Svo vel vildi til, að kaupandinn, RS Platou, hafði skrifstofu í sama húsi og Glitnir Securities. Finnska fjármálaeftirlitið lagði þunga áherslu á það, að Glitnir Pankki væri seldur hið bráðasta, og keyptu starfsmenn hann á þrjú þúsund evrur. Bókfært virði hans í árslok 2008 var hins vegar hátt í 50 milljónir evra, og árið 2013 var hann seldur fyrir 200 milljónir evra. Hannes telur, að óeðlilegur gróði útlendinga af þessum kaupum þremur — munurinn á markaðsverði og því verði, sem þeim tókst að knýja fram — hafi verið á bilinu 40–160 milljarðar íslenskra króna.

Fyrirlestur Hannesar var fjölsóttur, og birti hann grein í Morgunblaðinu 14. mars um efni hans, og var rætt við hann í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins 15. mars og í netsjónvarpi Viðskiptablaðsins:

Glærur Hannesar 14. mars 2014

Ritgerð sú, sem Hannes samdi upp úr fyrirlestri sínum, birtist í sérstöku ráðstefnuriti Viðskiptafræðistofnunar hér á Netinu.