Monthly Archives: March 2014

Smæðin tækifæri ekki síður en takmörkun

Hannes flytur fyrirlestur sinn í Öström. Ljósm. Heinesen-myndir
Hannes flytur fyrirlestur sinn í Öström. Ljósm. Heinesen-myndir

Smæð þjóða getur verið tækifæri ekki síður en takmörkun, sagði dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, forstöðumaður rannsókna RNH, á fundi stjórnmálafélagsins Framsóknar í Færeyjum í samkomuhúsinu Öström í Þórshöfn laugardaginn 22. mars 2014. Í erindi sínu rakti Hannes í örstuttu máli sögu Íslendinga, sem hefðu öldum saman setið fastir í gildru Malthusar. Þá hefði fólksfjöldi ekki komist yfir fimmtíu þúsund manns, af því að nokkrir stórbændur hefðu í samstarfi við Danakonung haldið niðri sjávarútvegi, sem einn hefði verið sæmilega arðbær. Lífskjör á Íslandi hefðu verið helmingur á við það, sem gerðist í Danmörku, allt til 1940. Frá þeim tíma og fram á síðasta áratug 20. aldar hefðu Íslendingar haldið uppi betri lífskjörum en efni stóðu til með aðstoð Bandaríkjanna í heitu stríði og köldu, fjórum útfærslum fiskveiðilögsögunnar og rányrkju, sem hefði leitt til hruns síldarstofnsins og næstum því til hruns þorskstofnsins. Tímamót hefðu hins vegar orðið 1991, þegar Íslendingar hefðu opnað hagkerfið og aukið atvinnufrelsi. Hætt hefði verið að ausa fé í óarðbær fyrirtæki, verðbólga hjaðnað, hallarekstri ríkissjóðs verið snúið í afgang, sem notaður hefði verið til að greiða skuldir hins opinbera, ríkisfyrirtæki verið seld, skattar lækkaðir, kvótakerfið í sjávarútvegi betrumbætt og lífeyrissjóðir efldir.

Önnur tímamót hefðu hins vegar orðið 2004, þegar fámenn auðklíka undir forystu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í Baugi hefði náð völdum á Íslandi. Þá hefði klíkukapítalismi leyst markaðskapítalisma af hólmi. Varpaði Hannes upp línuriti með tölum skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu, en það sýndi að sögn hans, að auðklíka Jóns Ásgeirs hefði fyrir hrun safnað miklu meiri skuldum en hinar viðskiptasamstæðurnar tvær, sem rannsóknarnefndin skilgreindi. Vegna krosseignatengsla og ofmetinna eigna hefði þannig myndast sérstök kerfislæg áhætta á Íslandi, sem hefði bæst við þá aðra kerfislægu áhættu, að rekstrarsvæði íslensku bankanna hefði verið miklu stærra en baktryggingarsvæði þeirra, eins og komið hefði á daginn haustið 2008. Þá hefðu ákvarðanir í New York og Lundúnum velt hinum óstöðuga íslenska fjármálamarkaði um koll. Bandaríkjamenn hefðu ekki gert gjaldeyrisskiptasamninga við Íslendinga eins og við aðrar Norðurlandaþjóðir, og Bretar hefðu ekki aðeins neitað að veita breskum bönkum í eigu Íslendinga aðild að fyrirgreiðslu, sem aðrir breskir bankar fengu, heldur hefðu þeir sett hryðjuverkalög á Landsbankann, Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið og með því gert að engu allar vonir um, að einhverjir íslenskir bankar gætu lifað áfram.

Bankahrunið haustið 2008 hefði valdið snöggri vinstrisveiflu á Íslandi, sem hefði síðan gengið til baka í kosningunum vorið 2013. En bankahrunið hefði sýnt Íslendingum, að erfitt gæti verið að standa uppi vinafáir. Þrátt fyrir skeytingarleysi Bandaríkjamanna og Breta um hag Íslendinga væru þeir ásamt Kanadamönnum eðlilegustu bandamenn Íslendinga. Einskis skjóls væri að leita í Evrópusambandinu eins og dæmi Kýpur hefði sýnt. Umfram allt yrðu smáþjóðir þó að treysta á sjálfar sig í hörðum heimi, nýta auðlindir sínar skynsamlega, halda skattheimtu í hófi og auðvelda verðmætasköpun. Fyrirlestur Hannesar var þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Erlendir úrslitaþættir bankahrunsins

Hannes flytur fyrirlestur sinn í Humboldt-háskóla.
Hannes flytur fyrirlestur sinn í Humboldt-háskóla.

Þegar leið fram á árið 2008, var ástandið á íslenska fjármálamarkaðnum viðkvæmt og stefndi í djúpa kreppu, eins og Íslendingar hafa stundum þurft að glíma við, en þrír erlendir áhrifaþættir felldu íslensku bankana og breyttu fyrirsjáanlegri kreppu í fullkomið hrun. Þessir áhrifaþættir voru, að bandaríski seðlabankinn skyldi neita íslenska seðlabankanum um lánalínur í dölum, á meðan hann veitti danska, sænska og norska seðlabankanum slíkar lánalínur; að Bretar skyldu neita breskum bönkum í íslenskri eigu um lausafjárfyrirgreiðslur, á meðan þeir veittu fjölda annarra banka slíka fyrirgreiðslu, til dæmis RBS og Lloyds; að Bretar skyldu að nauðsynjalausu setja hryðjuverkalög á íslenskt fyrirtæki með víðtækum afleiðingum fyrir önnur íslensk fyrirtæki. Þetta voru meginatriðin í fyrirlestri dr. Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar prófessors á fjölmennri ráðstefnu Evrópskra frjálshyggjustúdenta, ESL, European Students for Liberty, sem haldin var í Humboldt-háskólanum í Berlín 14.–16. mars 2014.

Hannes vísaði einnig á bug algengum skýringum á bankahruninu íslensku.
1) Íslensku bankarnir voru ekki stærri hlutfallslega en hinir svissnesku, sem var bjargað, meðal annars með lánalínum í dölum frá bandaríska seðlabankanum. Höfðu svissnesku bankarnir þó gerst sekir um að farga skjölum um innstæður Gyðinga og stunda viðskipti við þjóðir á bannlista Breta og Bandaríkjamanna, meðal annars nokkur ríki á lista breska fjármálaráðuneytisins um hryðjuverkasamtak, þar sem Landsbankinn var um nokkurt skeið.
2) Íslensku bankamennirnir voru hvorki betri né verri en bankamenn erlendis, sem tóku stórkostlega áhættu, til dæmis með undirmálslánum í Bandaríkjunum, enda þurftu þeir síðan stórfé í ríkisaðstoð, jafnt lausafjárfyrirgreiðslu og aukið eigið fé. RBS og Lloyds, sem fengu aðstoð frá breska ríkinu, höfðu til dæmis ýmislegt misjafnt á samviskunni.
3) Íslenska bankahrunið var ekki vegna misheppnaðrar tilraunar til að framkvæma „nýfrjálshyggju“ á Íslandi, enda laut íslenski fjármálamarkaðurinn nákvæmlega sömu reglum og slíkir markaðir í öðrum aðildarríkjum EEA, Evrópska efnahagssvæðisins. Hannes viðurkenndi hins vegar, að tveir sérstakir áhættuþættir hefðu verið að verki á íslenska fjármálamarkaðnum, krosseignatengsl og óeðlileg skuldasöfnun einnar viðskiptasamsteypunnar, Baugsklíkunnar, eins og kom fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis frá 2010, og einnig sú staðreynd, að rekstrarsvæði bankanna var miklu stærra en baktryggingarsvæði þeirra, sem reyndist að lokum vera Ísland eitt — vegna þeirra erlendu úrslitaþátta, sem áður var um getið.

Ráðstefnugestir í hátíðasal Humboldt-háskóla að ræðu Johans Norbergs lokinni. Hann heldur fremst á merki samtakanna. Hannes H. Gissurarson situr í 3. röð lengst t. v. Tom Palmer stendur við vinstri útganginn, lengst t. v., og við hlið hans Dan Grossman, stjórnarformaður Atlas Network.

Fyrirlestur Hannesar var þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“, en á meðal styrktaraðila ráðstefnunnar var New Direction, sem er eins konar hugveita AECR. Lukas Schweiger stjórnaði fundinum með Hannesi. Á meðal annarra fyrirlesara á ráðstefnu ESL voru bandaríski heimspekingurinn dr. Tom Palmer og sænski sagnfræðingurinn og rithöfundurinn Johan Norberg, og var gerður góður rómur að máli þeirra. Aleksandar Kokotovic frá Belgrad-háskóla er formaður ESL, en Yaël Ossowski frá Vínarháskóla var aðalskipuleggjandi ráðstefnunnar. Þótti hún takast hið besta.

Útlendingar höfðu hundrað milljarða af Íslendingum

HHG.Mbl_.14.03.2014Útlendingar nýttu sér neyð Íslendinga í bankahruninu til þess að kaupa af þeim eignir á verði, sem var langt undir eðlilegu markaðsverði, jafnvel í kreppu. Þetta gátu þeir, því að opinberir aðilar í ýmsum Evrópulöndum neituðu íslenskum fyrirtækjum um þá fyrirgreiðslu, sem innlend fyrirtæki fengu. Þessu hélt dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði og forstöðumaður rannsókna RNH, fram í fyrirlestri, sem hann flutti á vorráðstefnu Viðskiptafræðistofnunar Háskóla Íslands 14. mars 2014. Hannes rifjaði upp kenningar heilags Tómasar af Akvínó um viðskiptasiðferði: Menn mættu reyna að fá sem hæst verð fyrir vöru sína (Summa Theologiæ, II, II, 77, 3), en þeir mættu ekki nýta sér neyð annarra til að setja þeim afarkosti (Summa Theologiæ, II, II, 66, 7). Undir þetta sjónarmið heilags Tómasar taka ýmsir frjálshyggjumenn, til dæmis Friedrich von Hayek og Robert Nozick, þótt sérhyggjumenn hafni því.

HHG.14.03.2013.lectureHannes rakti í fyrirlestri sínum þrjú dæmi, sölu Glitnir Bank ASA í Noregi, Glitnir Securities í Noregi og Glitnir Pankki Oy í Finnlandi. Norski seðlabankinn hafi neitað fyrirtækjum í eigu Íslendinga um alla fyrirgreiðslu, en Tryggingarsjóður innstæðueigenda veitt skyndilán, en stjórnarformaður Tryggingarsjóðsins síðan sett saman hóp kaupenda, sem hefði keypt Glitnir Bank á 300 milljónir norskra króna, en bankinn hafi þremur mánuðum síðar verið metinn á tvo milljarða norskra króna. Svipað var að segja um Glitnir Securities. Starfsmenn keyptu fyrirtækið á 50 milljónir norskra króna strax eftir bankahrunið, en seldu viku síðar helmingshlut í fyrirtækinu á 50 milljónir. Svo vel vildi til, að kaupandinn, RS Platou, hafði skrifstofu í sama húsi og Glitnir Securities. Finnska fjármálaeftirlitið lagði þunga áherslu á það, að Glitnir Pankki væri seldur hið bráðasta, og keyptu starfsmenn hann á þrjú þúsund evrur. Bókfært virði hans í árslok 2008 var hins vegar hátt í 50 milljónir evra, og árið 2013 var hann seldur fyrir 200 milljónir evra. Hannes telur, að óeðlilegur gróði útlendinga af þessum kaupum þremur — munurinn á markaðsverði og því verði, sem þeim tókst að knýja fram — hafi verið á bilinu 40–160 milljarðar íslenskra króna.

Fyrirlestur Hannesar var fjölsóttur, og birti hann grein í Morgunblaðinu 14. mars um efni hans, og var rætt við hann í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins 15. mars og í netsjónvarpi Viðskiptablaðsins:

Glærur Hannesar 14. mars 2014

Ritgerð sú, sem Hannes samdi upp úr fyrirlestri sínum, birtist í sérstöku ráðstefnuriti Viðskiptafræðistofnunar hér á Netinu.